24.05.2022
Skráning er hafin á haustnámskeið ADHD samtkanna. Ný og fjölbreytt námskeið – stóraukið framboð! Áfram verða á dagskránni okkar sívinsælu námskeið eins og Áfram stelpur, TÍA – tómstundir, íþróttir og ADHD, foreldranámskeiðin og Taktu stjórnina en nú bætast einnig við ný og spennandi sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir börn og ungmenni, Súper strákar og Súper stelpur og fjarnámskeiðið Áfram veginn, fyrir fullorðið fólk með ADHD. Skólinn og ADHD ætlað kennurum og öðru starfsfólki skóla sem vinna með börnum með ADHD. Fram að hausti njóta félagsmenn ADHD samtakanna forgangs að skráningu og sérstakra afsláttarkjara á öllum námskeiðunum. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður á flest námskeiðin - fyrstur kemur fyrstur fær. Nánar má fræðast um námskeiðin á heimasíðunni ADHD samtakanna.
16.05.2022
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram laugardaginn 20. ágúst 2022 og ljóst að Covid19 fær ekki að setja strik í reikninginn að þessu sinni. Áheitasöfnun hlauparanna er í ár líkt og áður gríðarlega mikilvægur líður í fjáröflun samtakanna. ADHD samtökin hafa í gengum tíðina notið góðs af frábærum hópi fólks sem hefur hlaupið undir nafni samtakanna og verið hluti af #TeamADHD og við fögnum hverjum nýjum þátttakanda.
09.05.2022
Þriðjudaginn 3. maí og miðvikudaginn 4. maí buðum við í ADHD Eyjar upp á námskeiðið TÍA fyrir alla þá sem koma að börnum í frístundum hér í Vestmannaeyjum.
Námskeiðið var í höndum Bóasar Valdórssonar sálfræðings. Fyrir börn með ADHD er afskaplega mikilvægt að þekking á ADHD, bæði styrkleikum og veikleikum nái yfir til allra sem vinna með þau. Að taka þátt í íþróttum og frístundastarfi eflir félagsfærni og sjálfstraust barna þegar það gengur vel. Það er því nauðsynlegt að gefa hverju barni möguleika á að taka þátt í íþróttum og tómstundastarfi og leggja sig fram við að láta það ganga vel. Þetta námskeið var liður í því að efla fræðslu, gefa öllum verkfæri í hendurnar til að takast á við fjölbreyttan barnahóp og auka líkur á að ADHD börn fái jákvæða upplifun af því að taka þátt með jafnöldrum sínum. En aðferðirnar sem Bóas ræddi um á námskeiðinu munu svo eflaust gagnast fleiri börnum en bara ADHD börnum.
05.05.2022
Opinn spjallfundur fyrir fullorðna með ADHD. Hvort þú er ógreindur, nýgreindur eða langgreindur þá er þessi fundur fyrir þig. Tilgangurinn er að ræða saman um reynslu okkar af ADHD læra af hvort öðru og deila góðum bjargráðum. Guðni Rúnar Jónasson starfsmaður samtakanna verður fjallar um reynslu sína að hafa greinst á fullorðins árum og að hafa farið í gengum 36 ár án þess að hafa hugmynd um að hann væri með ADHD eða hvað það væri. Síðan eru opnar umræður fyrir þá sem vilja tjá sig eða spyrja spurninga. Hispurslaus umræða á mannamáli.
Fundurinn er í húsakynnum ADHD Samtakanna, Háaleitisbraut 13 á fjórðu hæð. Mánudaginn 9. maí, húsið opnar 19:30 og er opið öllum, heitt á könnunni.
26.04.2022
Nú eru síðustu forvöð að skrá sig á Áfram Stelpur! námskeiðið sem er nú í maí, námskeiðið er það síðasta fyrir sumarið og verður ekki aftur fyrr en í haust. Kennt er í fjórum lotum miðvikudagsmorgnanna 4, 11, 18 og 25. maí milli 9:00 og 11:30
Markmið námskeiðs:
Námskeiðinu er ætlað að veita fræðslu um ADHD einkenni kvenna, algengar fylgiraskanir þeirra og ólíkar birtingarmyndir röskunarinnar. Áhersla er lögð á þau hugrænu ferli sem liggja að baki algengum áskorunum sem einstaklingar með ADHD mæta í daglegu lífi, hvort sem er í námi, starfi, heimilislífi, félagslegum samskiptum eða uppeldi. Markmið námskeiðsins er að styrkja konur með ADHD í markmiðasetningu, áætlanagerð og skipulagi með það fyrir augum að draga úr streitu og vanmáttarkennd. Námskeiðinu er ætlað að fræða konur um ýmis verkfæri sem nýst geta í þessum tilgangi og veita þjálfun í notkun þeirra í gegnum samtöl og verkefnavinnu.
19.04.2022
Þann 29. apríl næstkomandi stendur ÖBÍ fyrir hugmyndafundi ungs fólks á aldrinum 13-18 ára er nefnist „OKKAR LÍF-OKKARSÝN“ en tilgangur þess er að gefa ungmennum með fatlanir og raskanir tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Þessi vettvangur er kjörið tækifæri fyrir börn með ADHD að láta rödd sína heyrast. Hvað vilja þau sjá og hvað mætti samfélagið gera betur til að koma til móts við þeirra þarfir.
08.04.2022
ADHD Samtökin voru ein af 23 félagasamtökum- og verkefnum sem var í dag úthlutaður styrkur af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, Félags- og vinnumarkaðsráðherra. Að þessu sinni var lögð sérstök áhersla á verkefni sem hvetja til virkni, vellíðan og valdeflingar einstaklinga í viðkvæmri stöðu, svo sem þá sem búa við félagslega einangrun, ofbeldi eða aðstæður sem hindra þátttöku í samfélaginu. Allt eru þetta gildi sem eru hornsteinn í starfsemi ADHD Samtakanna og því sannur heiður að hljóta þennan styrk og ver í svona fríðu föruneyti félagasamtaka- og verkefna.
06.04.2022
Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2022 fór fram miðvikudaginn 30. mars 2022 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbrut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2021 afgreiddir, viðamiklar lagabreytingar samþykktar og ályktað um þá óviðandu stöðu sem nú ríkir hjá hinu opinbera við greiningar og þjónustu við fólk með ADHD. Árgjaldið verður óbreytt, kr 3650 og hafa kröfur vegna þess verið stofnaðar i heimabanka félagsfólks.
31.03.2022
Aðalfundur ADHD samtakanna, haldinn 30. mars 2022 fagnar þeim breytingum sem nú er verið að gera á þjónustu við fólk með ADHD. Nýtt ADHD teymi heilsugæslunnar fyrir fullorðna, Geðheilsumiðstöð barna og fyrirheit um aukið fjármagn og bætta þjónustu á landsvísu eru löngu tímabærar aðgerðir af hálfu hins opinbera til að bregðast við því ófremdarástandi sem skapast hefur í málafloknum á liðnum árum.