Haustdagskrá námskeiða ADHD samtakanna 2022
Skráning er hafin á haustnámskeið ADHD samtakanna. Ný og fjölbreytt námskeið – stóraukið framboð!
Á árinu 2022 höfum við stóraukið framboð á námskeiðum og verður engin breyting á því nú í haust en fram að áramótum verða haldin amk 8 námskeið fyrir ýmsa hópa um fjölbreyttar hliðar ADHD.
Áfram verða á dagskránni námskeið sem hafa verið með einum eða öðrum hætti á liðnum árum og hafa hlotið mikið lof meðal þátttakenda eins og Áfram stelpur, TÍA – tómstundir, íþróttir og ADHD, foreldranámskeið og Taktu stjórnina en nú bætast einnig við ný og spennandi sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir börn og ungmenni, Súper strákar og Súper stelpur og fjarnámskeiðið Áfram veginn, fyrir fullorðið fólk með ADHD. Ennfremur kemur inn nýtt námskeið, Skólinn og ADHD ætlað kennurum og öðru starfsfólki skóla sem vinna með börnum með ADHD. Námskeiðin verða flest haldin í sal ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13 og/eða í gegnum fjarfundarbúnað fyrir þá sem ekki geta komið á staðinn.
Skráning er hafin á öll námskeiðin en fram að áramótum njóta félagsmenn ADHD samtakanna forgangs að skráningu og sérstakra afsláttarkjara á öllum námskeiðunum. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður á flest námskeiðin - fyrstur kemur fyrstur fær. Hægt er að skrá sig í ADHD samtökin hér.
Nánar má fræðast um námskeiðin hér fyrir neðan.
Áfram stelpur! Fræðslu og sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur með ADHD.
Áfram stelpur! er fræðslu- og sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur með ADHD. Námskeiðinu er ætlað að veita fræðslu um ADHD einkenni kvenna, algengar fylgiraskanir þeirra og ólíkar birtingarmyndir röskunarinnar. Áhersla er lögð á þau hugrænu ferli sem liggja að baki algengum áskorunum sem konur með ADHD mæta í daglegu lífi, hvort sem er í námi, starfi, heimilislífi, félagslegum samskiptum eða uppeldi. Markmið námskeiðsins er að styrkja konur með ADHD í markmiðasetningu, áætlanagerð og skipulagi með það fyrir augum að draga úr streitu og vanmáttarkennd, fræða konur um ýmis verkfæri sem nýst geta í þessum tilgangi og veita þjálfun í notkun þeirra í gegnum samtöl og verkefnavinnu.
Námskeiðið stendur í 10 klukkustundir - fjögur skipti, 2.5 klukkukstundir í senn og það hefst þriðjudaginn 4. október og lýkur 25. október 2022.
Innifalið í námskeiðsgjaldi er bók Dr. Ara Tuckman, "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" sem kostar kr. 5.900,- ein og sér.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Foreldranámskeið fyrir aðstandendur 6-18 ára
Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur öðlist góðan skilning á hvað er ADHD og fái einföld og hagnýt ráð við uppeldi barna og ungmenna með ADHD. Námskeiðið hentar því vel fyrir alla nána aðstandendur barna og ungmenna með ADHD, mömmur, pabba, fósturforeldra, stjúpforeldra, ömmur, afa og aðra nána. Það er mikill kostur ef allir nánustu aðstandendur geta tekið þátt.
Námskeiðið verður haldið í Reykjavík, laugardagana 15. og 22. október 2022, frá kl. 10:00-15:00 en boðið verður uppá fjarfundarbúnað fyrir þá sem ekki geta mætt á staðinn. Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
TÍA - tómstundir, íþróttir og ADHD
Hnitmiðað og fjölbreytt námskeið um ADHD í tveim hlutum fyrir fagfólk sem starfar við íþrótta- og tómstundastarf aðra aðila sem koma að skipulögðu starfi krakka með ADHD.
Námskeiðið er í höndum reynslumikilla fagaðila á sviðinu. Það eru þau Jakob Frímann Þorsteinsson, MA í náms- og kennslufræðum, Vanda Sigurgeirsdóttir MA í uppeldis- og menntunarfræði og Bóas Valdórsson klínískur sálfræðingur sem hafa veg og vanda að námskeiðinu. Vanda og Jakob starfa við HÍ og hjá KVAN og Bóas starfar sem sálfræðingur við MH.
Á námskeiðinu fá þátttakendur hagnýt verkfæri, þjálfast í að nota þau, fræðslu um ADHD og gagnleg ráð. Unnið með reynslumiðuðum hætti með fyrri reynslu þátttakenda og efni námskeiðsins. Á milli þessara tveggja skipta þurfa þátttakendur að gera ráð fyrir tíma til að vinna með efnið í eigin starfi eða þjálfun. Farið er yfir mikilvæga þætti í öllu hópastarfi þar sem einkenni hópaþróunar er tekin fyrir og farið í hvernig stjórnandi hópsins getur nýtt þá krafta sem búa í hverjum hóp með jákvæðum hætti. Rætt er um heppilega og gagnlega samskiptahætti, markmiðasetningu og mikilvægi þess að leiðbeinendur virkji þátttakendur á jákvæðan og eflandi hátt.
Námskeiðið er kennt í tveimur lotum bæði í staðnámi og í gegnum fjarfundarbúnað á raun tíma, 3 klst. í senn. Á milli lota æfa þátttakendur sig í að beita aðferðum námskeiðsins.
Dagsetningar tilkynntar síðar.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Taktu stjórnina - fræðslunámskeið fyrir fullorðna með ADHD
Markmið námskeiðsins er að veita fullorðnum með ADHD helstu upplýsingar um einkenni ADHD og ólíkar birtingarmyndir röskunarinnar. Styrkja einstaklingana í að skipuleggja líf sitt, ná utan um það sem kannski áður hefur farið forgörðum, vinna á streitu og kvíða með upplýsingum, samtölum og æfingum. Veita þátttakendum ákveðin tæki til að líða betur með ADHD í sínu lífi. Setja sér skynsamleg markmið og raunhæfar kröfur. Afraksturinn er betri einstaklingur, huganlega betra og ánægðara foreldri, maki, starfsmaður og borgari.
Námskeiðið stendur í 10 klukkustundir - fjögur skipti, 2.5 klukkukstundir í senn, fyrsti tíminn er miðvikudaginn 7. september og námskeiðið tekur enda 28. septenber.
Innifalið í námskeiðsgjaldi er bók Dr. Ara Tuckman, "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" sem kostar kr. 5.900,- ein og sér.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Áfram veginn! Fjarnámskeið fyrir fullorðna með ADHD
Ertu eldri en 18 ára, kannski nýgreindur með ADHD eða fékkstu greiningu fyrir einhverju síðan? Þá er fjarnámskeiðið „Áfram Veginn” mögulega námskeið fyrir þig!
Fjarnámskeiðið Áfram veginn! er nýtt námskeið fyrir fullorðna með ADHD. Þar ætlum við að fræðast um ADHD með styrkleika að leiðarljósi en með auknum skilningi á þínu ADHD eykur þú líkurnar á betri stjórn og auknum lífsgæðum í daglegu lífi. Áskoranir ADHD geta haft margvísleg áhrif í daglegu lífi. Á námskeiðinu skoðum við hvar þær liggja og aðferðir til að takast á við þær og ná betri tökum á þeim.
Námskeiðið fer fram í gegnum fjarfundarbúnað ZOOM laugardagana 12 og 19. nóvember 2022 frá kl. 11 til 13 hvorn dag.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Súper Krakkar – sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir 9-12 ára stelpur með ADHD
Nýtt námskeiðið haldið í samstarfi við Sjálfstyrk sem er ætlað 9-12 ára stelpum með ADHD. Á námskeiðinu læra stelpurnar leiðir til þess að efla sjálfsmynd, félagsfærni og tilfinningastjórnun. Unnið er út frá aðferðum hugrænni atferlismeðferðar (HAM), díalektískrar atferlismeðferðar (DAM), núvitundar og yoga.
Soffía Elín Sigurðardóttir sálfræðingur Sjálfstyrks kennir námskeiðið og er allt efni byggt á gagnreyndum sálfræðimeðferðum. Viðgjöf er veitt til foreldra á meðan námskeiði stendur. Soffía hefur, ásamt kollega sínum Paola Cardenas, nýverið gefið út bækurnar Súper Vitrænn og Súper Viðstödd og eru það fyrstu barnabækurnar í seríunni um Súperstyrkina. Bækurnar má kaupa í vefverslun ADHD samtakanna.
Námskeiðið fer fram í Reykjavík og er kennt á fjórum dögum frá 9. til 30 september.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Súper Krakkar – Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir 9-12 ára stráka með ADHD
Námskeiðið er haldið í samstarfi við Sjálfstyrk og er ætlað drengjum 9 -12 ára með ADHD. Á námskeiðinu læra strákarnir leiðir til þess að efla sjálfsmynd, félagsfærni og tilfinningastjórnun. Unnið er út frá aðferðum hugrænni atferlismeðferðar (HAM), díalektískrar atferlismeðferðar (DAM), núvitundar og yoga.
Soffía Elín Sigurðardóttir sálfræðingur Sjálfstyrks kennir námskeiðið og er allt efni byggt á gagnreyndum sálfræðimeðferðum. Viðgjöf er veitt til foreldra á meðan námskeiði stendur. Soffía hefur, ásamt kollega sínum Paola Cardenas, nýverið gefið út bækurnar Súper Vitrænn og Súper Viðstödd og eru það fyrstu barnabækurnar í seríunni um Súperstyrkina. Bækurnar má kaupa í vefverslun ADHD samtakanna.
Námskeiðið fer fram í Reykjavík og er kennt á fjórum dögum frá 3 til 24 nóvember.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.
Skólinn og ADHD - Kennaranámskeið
Fjögurra tíma fjarnámskeið, tvö skipti í tvo tíma, ætlað kennurum og öðru starfsfólki skóla sem vinna með börnum með ADHD. Námskeiðinu er ætlað að efla þekkingu skólasamfélagsins á ADHD röskuninni og þeim eiginleikum og áskorunum sem henni fylgja. Líðan barna er mikilvægur þáttur í öllu skólastarfi og tilfinningavandi getur haft afgerandi áhrif á námsframvindu. Fjallað er um kvíða og depurð og hvernig hægt er að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra. Að auki er farið yfir hagnýtar leiðir í kennslu og umönnun barna með ADHD og hvernig hægt er að auka getu þeirra í námi, samstarfi og leik.
Námskeiðið fer fram í gegnum fjarfundarbúnað ZOOM laugardagana 27. ágúst og 3. september 2022 frá kl. 10 til 12 hvorn dag.
Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.