25.11.2016
Kastljós RÚV fjallaði í gær um undirskriftasöfnun ADHD samtakanna og sjö annarra félagasamtaka vegna sálfræðiþjónustu. Söfnun undirskrifta gengur mjög vel en nú hafa á níunda þúsund einstaklingar tekið undir þá kröfu að sálfræðiþjónusta verði veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Það þýðir að hún verði felld undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.
23.11.2016
ADHD samtökin selja jólakort fyrir þessi jól líkt og áður. Tvö ný kort hafa nú verið gefin út og eru bæði með myndum eftir Mæju - Maríu Sif Daníelsdóttur. Þrjár tegundir eru í boði. Annars vegar sex kort í pakka með tveimur myndum, "Herramaður í jólabúningi" og "Eintóm gleði" og kostar pakkinn kr. 1.800,-. Hins vegar eldra kort ADHD, Jólagleði, ský, ást og friður". Tíu kort eru í pakka og kostar hann aðeins kr. 2.000,-
15.11.2016
ADHD samtökin, hafa í samvinnu við sjö önnur félagasamtök, hrint af stað undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld eru hvött til að fella sálfræðiþjónustu nú þegar undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Með undirskrift tekur einstaklingur undir þá kröfu að sálfræðiþjónusta verði veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Auk ADHD samtakanna standa að undirskriftasöfnuninni, Barnaheill - Save the Children á Íslandi, Einhverfusamtökin, Einstök Börn, Landssamtökin Þroskahjálp, Sjónarhóll - ráðgjafarmiðstöð, Tourette-samtökin á Íslandi og Umhyggja - félag langveikra barna.
02.11.2016
ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld - miðvikudaginn 2. nóvember kl. 20:30 fyrir foreldra og forráðamenn. Fundurinn verður að Háaleitisbraut 13. Yfirskrift hans er "ADHD og lyf" og leiða þau Elín Hrefna Garðarsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson fundinn. Allir velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
01.11.2016
ADHD samtökin hafa nú ráðist í útgáfu þriggja nýrra fræðslubæklinga og eru fræðslubæklingar samtakanna þá orðnir 10, auk tveggja nýútgefinna bóka. Nýju bæklingarnir eru Náin sambönd & ADHD - Afbrot & ADHD - What is ADHD? Hægt er að nálgast alla bæklingana á skrifstofu ADHD eða fá þá senda með pósti gegn greiðslu póstburðargjalds.