26.10.2023
Sjónarhóll - ráðgjafamiðstöð ses. hlýtur hvatningarverðlaun ADHD samtakanna árið 2023, fyrir ómetanlegan stuðning við börn með ADHD og fjölskyldur þeirra í hátt í 20 ár. Þetta var tilkynnt við upphaf 35 ára afmælisráðstefnu ADHD samtakanna - Betra líf með ADHD, sem haldin er á Grand hótel í dag og á morgun. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson og formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson afhentu framkvæmdastjóra Sjónarhóls, Bóasi Valdórssyni verðlaunin - viðurkenningarskjal og glæsilegt málverk eftir Mæju - Maríu Sif Daníelsdóttur.
25.10.2023
Á morgun heldur ADHD samtökin í samstarfi við ADHD Europe tveggja daga alþjóðlega afmælisráðstefnu um ADHD sem nefnist „Betra líf með ADHD“ í tilefni af 35 ára afmæli samtakanna.
Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á áskorunum sem einstaklingar með ADHD glíma við ásamt því að kynna ýmsar lausnir til að takast á við afleiðingar hennar. Kunnir erlendir og íslenskir fyrirlesarar halda erindi og umfjöllunarefnin snerta málefni barna, ungmenna og fullorðinna einstaklinga. Meðal fyrirlesara eru Ari Tuckman, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, Kathleen Nadeau, sálfræðingur, Saaskia van der Oord, prófessor í sálfræði, Amori Yee Mikami, prófessor í sálfræði, Lachenmeier, geðlæknir og Dr. Sandra Koji, geðlæknir. Jafnframt verða kynntar til sögunnar nýjar íslenskar rannsóknir um ADHD.
Enþá er í boði að skrá sig í streymi þannig ekki missa af, skráðu þig núna.
20.10.2023
Fræðslunámskeið fyrir aðstandendur barna með ADHD frá 6 til 12 ára aldri verður haldið hautið 2023 í húsakynnum ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, 4. hæð og í gegnum fjarfundarbúnað.
19.10.2023
Þann 12. október síðastliðinn fór fram öflug fræðsla um ADHD í Dalvíkurbyggð. Í samtarfi við ADHD samtökin fengu nemendur í 5. til 10. bekk fræðslu um ADHD og samskipti. Auk þess sóttu starfsfólk skóla og íþróttahúss fræðslu um ADHD og skólann þar sem farið var yfir mikilvægi þess að umhverfið tali í takt. Ekki síst fengu foreldrar og aðstandendur fræðslu um birtingamyndir ADHD, ADHD fókus og mikilvægi þess að byggja á styrkleikum til að vinna með áskoranir. Það er alltaf jákvætt þegar sveitarfélög og stofnanir vilja fræðast meira um ADHD og eftir því sem fleiri þekkja til röskunarinnar eykst skilningur og jákvæðni. ADHD samtökin fagna þessu mikilvæga framtaki hjá Dalvíkurbyggð og hlakka til að fylgjast með framhaldinu, ekki síst hvernig skólinn kemur til með að nýta sér þekkinguna.
06.10.2023
Akureyri Fræðslufundur - Samskipti og samvinna heimilis og skóla. 11. október kl: 20:00 - 22:00 Sunnuhlíð 12, verslunarmiðstöð, gengið inn norðan megin.
Hvernig getum við stuðlað að góðri samvinnu og jákvæðum samskiptum milli heimilis og skóla? Á þessum fræðslufundi verður farið yfir grunnatriðin um hvernig má bæta samskiptin og hvernig má sjá framför í námsárangri barna með ADHD. Fjallað verður meðal annars um:
- Hvernig á að klára heimanámið?
- Hvernig getur umhverfið stutt við jákvæða hegðun?
- Óæskileg hegðun og viðbrögð til að draga úr henni.
Eftir fræðsluna verður boðið upp á að spurja spurningar. Fræðslan er ætluð foreldrum barna á skólaaldri.
Fyrirlesarar eru Jóna Krístín Gunnarsdóttir, hegðunarráðgjafi
Hlekkur til að skrá sig sem félagsmaður: https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-adhd
Hlekkur að facebook viðburðinum má finna hér
05.10.2023
Vefnámskeið sem er ætlað leikskólakennurum og öðru starfsfólki leikskóla sem vinna með börnum þar sem grunur leikur á ADHD eða greining liggur fyrir. Starfsfólk Frístundar í grunnskólum er einnig hvatt til að nýta sér þetta námskeið því námskrá leikskóla, þar sem áhersla er á nám í gegnum leikinn, er mjög líkt ákjósanlegu fyrirkomulagi Frístunda.
Námskeið þetta gefur þátttakendum tækifæri á að efla þekkingu sína á ADHD og þeim eiginleikum og áskorunum sem því getur fylgt. Farið verður m.a. yfir skipulag kennslu, tól og tæki sem nýtast í kennslu og kenndar verða aðferðir sem geta dregið úr óæskilegri hegðun og styrkja æskilega hegðun með því að byggja á styrkleikum nemandans. Samskipti, samvinna og samræmd vinnubrögð sem koma að nemendum með ADHD geta skipt sköpum. Farið verður yfir leiðir til að eiga farsæl samskipti milli heimilis og skóla. Þess ber að geta að það sem virkar fyrir nemendur með ADHD virkar í flestum tilfellum fyrir aðra og því er fólk hvatt til að sækja sér þetta námskeið.
Fyrirlesari: Katrín Ruth Þorgeirsdóttir, Ráðgjafarþroskaþjálfi og Hegðunarráðgjafi.
04.10.2023
Á þessu spennandi nýja námskeiði munu Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir, ADHD markþjálfi og Anna Elísa Gunnarsdóttir félagsráðgjafi fara yfir allt það helsta sem tengist nánum samböndum og ADHD.
Parasambönd geta verið margskonar, gefandi en á sama tíma krefjandi, og það á einnig við sambönd þar sem ADHD kemur við sögu. Markmið þessa námskeiðs er að auka gagnkvæman skilning á birtingarmyndum ADHD í parasambandi og skapa vettvang fyrir samtal og betri samskipti til að stuðla að bættum lífsgæðum. Á námskeiðinu öðlist þið dýpri þekkingu á ADHD, kostum þess og áskorunum. Við skoðum hvernig ADHD hefur áhrif á samskipti og daglegt líf og reifum leiðir til að styðja við báða einstaklinga í sambandinu. Á námskeiðinu fléttum við saman fræðslu, umræðum og verkefnavinnu ásamt dæmum úr daglegu lífi.
Námskeiðið er opið öllum sem vilja auka vitneskju sína um ADHD og náin sambönd, bæði pör og einstaklingar velkomin.
Námskeiðið fer fram daganna 1. og 8. nóvember, frá 19:30 til 22:00 og fer það fram í húsnæði Gerðubergs.
Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér
Við sömuleiðis hvetjum þig til að ganga í samtökin hér
Öll velkomin!
02.10.2023
Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD. Í tilefni af mánuðnum munu ADHD samtökin vekja athygli á málefnum fólks með ADHD, en gera má ráð fyrir að hátt í 20.000 Íslendingar séu með ADHD - greint eða ógreint, börn og fullorðnir. Lýkur mánuðnum með alþjóðlegri afmælisráðstefnu samtakanna þann 27. október undir yfirskriftinni - Betra líf með ADHD.
Venju samkvæmt eru endurskinsmerki ADHD samtakanna, teiknuð af Hugleiki Dagssyni seld í fjáröflunarskini fyrir samtökin í októbermánuði ár hvert og er þetta ein helsta fjáröflun samtakanna. Endurskinsmerkin eru seld víða um land, bæði í heimahúsum, á torgum og við fjölda sölustaða Bónus og í vefverslun ADHD samtakanna. Endurskinsmerki kostar kr. 1.500,- og rennur allur ágóði af sölunni til ADHD samtakanna.
Nú er því rétti tíminn til að næla sér í endurskinsmerki fyrir fjölskylduna, enda skammdegið að skella á.
Athygli - já takk!