14.10.2019
ADHD Norðurland stendur fyrir opnum spjallfundi á Akureyri, um starfsemi ADHD samtakanna og betri lífsgæði fyrir fólk með ADHD, í kvöld, fimmtudaginn 17. október kl. 20:00. Fundurinn er ætlaður fólki með ADHD og foreldrum, forráðamönnum og nánum aðstandendum barna og ungmenna með ADHD.
14.10.2019
ADHD og einelti. ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund, um ADHD og einelti, í kvöld, miðvikudaginn 16. október nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 - IV. hæð og er ætlaður fólki með ADHD og foreldrum, forráðamönnum og nánum aðstandendum barna og ungmenna með ADHD.
11.10.2019
ADHD samtökin efna til málþings á Grand Hótel, föstudaginn 1. Nóvember nk. um ADHD og vinnumarkaðinn. Yfirskrift málþingsins er „Þú vinnur með ADHD“.
11.10.2019
Skráningu er að ljúka á hið sívinsæla námskeið ADHD samtakanna, Taktu stjórnina - fræðslunámskeið fyrir fullorðna með ADHD. Námskeiðið stendur í 10 klukkustundir - fimm skipti, 2 klukkukstundir í senn og það hefst þriðjudaginn 5. nóvember nk. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður - fyrstur kemur, fyrstur fær!
10.10.2019
ADHD Eyjar boða til opins fræðslu- og spjallfundar um ADHD og hvernig bæta megi lífsgæði fólks með ADHD í Vestmannaeyjum. Með fundinum á morgun, þriðjudaginn 15. október kl. 20:00 hefst formlegt starf ADHD Eyjar.
09.10.2019
Skráningu er að ljúka á hið sívinsæla fræðslunámskeið ADHD samtakanna fyrir aðstandendur 13-18 ára barna með ADHD. Námskeiðið verður haldið 9. og 16. nóvember milli 10:00 og 14:00 í Reykjavík, en þátttaka er möguleg í gegnum Facebook um allt land.
07.10.2019
Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD. Í tilefni af mánuðnum munu ADHD samtökin standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og með ýmsum hætti, vekja athygli á málefnum fólks með ADHD, en gera má ráð fyrir að hátt í 20.000 Íslendingar séu með ADHD - greint eða ógreint, börn og fullorðnir.
Til að marka upphaf ADHD vitundarmánaðarins að þessu sinni, afhenti formaður ADHD samtakanna, Elín H. Hinriksdóttir, heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrsta endurskinsmerki ADHD samtakanna árið 2019, en venju samhvæmt, er nýtt endurskinsmerki, teiknað af Hugleiki Dagssyni, selt í fjáröflunarskini fyrir samtökin, í októbermánuði ár hvert.
Dagana 5-20 október verður endurskinsmerkið selt víða um land, bæði í heimahúsum, á torgum og á fjölda útsölustaða Bónuss, Eymundsson, Íslandspóst, N1 og á adhd.is Endurskinsmerkið kostar kr. 1.000,- og rennur allur ágóði af sölunni til ADHD samtakanna.
07.10.2019
ADHD er snilld! ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund, um hið góða, fallega og fyndna í lífi fólks með ADHD, miðvikudaginn 2. október nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 - IV. hæð og er ætlaður fólki með ADHD og foreldrum, forráðamönnum og nánum aðstandendum barna og ungmenna með ADHD.
Umsjón með fundinum hefur Hákon Helgi Leifsson, snillingur og stjórnarmaður í ADHD samtökunum, sem skrifaði áhugaverða grein um sama efni fyrir nokkru - sjá hér: https://bit.ly/2GHVoeZ. Þar segir Hákon Helgi m.a. þetta:
"Við erum öll svo vön því að heyra það neikvæða um ADHD. Fréttir litaðar um meinsemdir svífa inn í vit hins almenna borgara og hefur áhrif til hins verra. En hvað um hið góða, fallega, fyndna og hið ótrúlega skemmtilega sem alltaf er áberandi í hug okkar, gjörðum og hjörtum?
Til þess að komast nær fullyrðingu titilsins verð ég að snerta á hinu samtímis. En það er eiginlega ADHD í hnotskurn. ADHD er heilkenni jaðranna, getur verið eins svart og desembernótt á miðhálendinu eða hvítt eins og nýfallinn snjór á aðfangadagsmorgni."
Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bækling samtakanna, bækur um ADHD og annað fræðsluefni.
Allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir. Það verður heitt á könnunni og að sjálfsögðu kostar ekkert að taka þátt.
Spjallfundir ADHD samtakanna eru yfirleitt fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði og má sjá dagskrána framundan hér: Spjallfundir ADHD samtakanna.
Ef þú vilt ganga í ADHD samtökin, er hægt að gera það hér. Ganga í ADHD samtökin.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.