Reglur og samþykktir

Lög ADHD samtakanna - félags til almannaheilla

1. grein – heiti félagsins og starfssvið

Nafn samtakanna er: ADHD samtökin fta. ADHD er alþjóðleg skammstöfun fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder eða á íslensku, athyglisbrestur með eða án ofvirkni og skyldar raskanir. ADHD samtökin eru landssamtök. Félagið starfar samhvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein – hlutverk

Hlutverk samtakanna er að vera fræðslu- og stuðningssamtök um málefni ADHD. Fjármagni sem samtökunum áskotnast skal að öllu leyti varið til reksturs og hlutverks samtakanna.

3. grein – félagsmenn

Allir geta orðið félagar í ADHD samtökunum sem orðnir eru 18 ára, foreldrar, aðstandendur og þeir sem greinst hafa með ADHD auk styrktarfélaga og annars áhugafólks um ADHD.

4. grein – félagsgjöld og önnur fjármögnun

Félagsmönnum er skylt að greiða það félagsgjald sem aðalfundur ákveður. Ef félagsmaður er með ógreidd félagsgjöld samtals í 3 ár er heimilt að fella félagsmann út af félagaskrá án viðvörunar. Samtökin fjármagna sig einnig með styrkjum frá opinberum aðilum og öðrum, sölu á vörum og þjónustu, og öðrum tilfallandi fjáröflunum.

5. grein – aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna.

Aðalfund skal halda fyrir lok apríl mánaðar ár hvert. Til hans skal boðað með sérstöku fundarboði sem sent er félagsmönnum með að minnsta kosti viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Sömuleiðis skal tilkynnt um hann í fjölmiðlum.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum, sbr. 8. grein.

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

  1. Félagsstjórn gerir grein fyrir störfum samtakanna á liðnu starfsári.
  2. Félagsstjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna fyrir liðið ár til samþykktar. Reikningsár samtakanna er almanaksárið.
  3. Lagabreytingar.
  4. Kosning stjórnar.
  5. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna til eins árs í senn.
  6. Ákvörðun félagsgjalda.
  7. Önnur mál.

Allar kosningar skulu vera skriflegar ef fleiri en eitt framboð kemur fram.

Fundargerð skal skráð um störf aðalfundar.

Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi þeirra. Skriflegum tillögum þar að lútandi skal skila til stjórnar félagsins, áður en til aðalfundar er boðað, með rafrænum eða öðrum rekjanlegum hætti og skal þeira sérstaklega getið í fundarboði, svo sem nánar er tilgreint í 2.mgr. hér að ofan. Lagabreyting telst samþykkt ef minnst ¾ hluta greiddra atkvæða á löglega boðuðum aðalfundi greiða henni atkvæði.

6. grein – stjórn samtakanna

Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum og tveim til vara. Formann, varaformann, gjaldkera og ritara skal kjósa sérstaklega.

Kjörtímabil aðalstjórnarmanna og varamanna er tvö ár.

Í aðalstjórn skal kjósa þannig:

Á oddatöluári skal kosið um formann, varaformann, einn aðalmann og einn varamann.

Á sléttu ártali skal kosið um gjaldkera, ritara, tvo aðalmenn og einn varamann.

Ef stjórnarmaður er á miðju kjörtímabili kosinn til annars embættis eða hann lætur af störfum af öðrum ástæðum, þá skal á næsta aðalfundi kjósa til eins árs í það embætti sem losnar.

Hætti kjörinn stjórnarmaður störfum milli aðalfunda, skal sá varamaður sem setið hefur lengur, taka sæti aðalmanns.

Stjórn samtakanna ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi samtakanna og ber ábyrgð á fjárreiðum þeirra. Hún skuldbindur samtökin gagnvart öðrum aðila. Gerðir stjórnarinnar skulu jafnan bókfærðar.

Stjórnin getur tekið ákvarðanir þegar að minnsta kosti fimm aðalstjórnarmenn eru mættir. Meirihluti stjórnar ritar firma samtakanna. Aðal- og varamönnum skal sent endurrit fundargerða eftir hvern stjórnarfund.

Stjórn samtakanna skal halda að minnsta kosti fimm stjórnarfundi á ári hverju.

Varamenn skulu boðaðir á alla stjórnarfundi.

Formaður félagsins má aldrei sitja lengur en heil þrjú kjörtímabil samfellt.

Félagsstjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar.

7. grein – almennir félagsfundir

Kalla skal til fundar þegar stjórn eða tíu félagar fara þess á leit. Almenna félagsfundi skal boða með sama ætti og aðalfund.

8. grein – félagið leyst

Félagið má leysa upp á aðalfundi hafi tillaga þess efnis verið auglýst í aðalfundarboði og tillagan er samþykkt af minnst ¾ hluta greiddra atkvæða.  Ef ákveðið verður að leysa upp félagið, ber aðalfundi að sjá til þess að eigur félagsins verði nýttar til þess að auka skilning á og fræðslu um ADHD.

9. grein – lagagrunnur

Þar sem ákvæði þessa samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

  • Lögin voru samþykkt á stofnfundi 7. apríl 1988
  • Breyting var gerð á 5. grein á aðalfundi 28. febrúar 1989
  • Breyting var gerð á 8 grein á aðalfundi 1. mars 2000
  • Breyting var gerð á nafni félagsins á aðalfundi 4. mars 2003
  • Breyting var gerð á nafni félagsins á aðalfundi 9. mars 2004 og öllum 9 greinum laganna eins og þær birtast hér
  • Breyting var gerð á 7.gr. laganna á aðalfundi 21. mars 2007
  • Breyting var gerð á 6. gr. og 7. gr. laganna á aðalfundi 11. mars 2013
  • Breyting var gerð á 6. gr. og 7. gr. laganna á aðalfundi 23. mars 2015
  • Breyting var gerð á 1. gr., 3. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr., 8. gr., 9. gr. og 10. gr. á aðalfundi 30. mars 2022.
  • Breyting var gerð á 2. gr, þannig að efni hennar var fellt út (um merki félagsins) og breyttust númer annarra greina til samræmis á aðalfundi 19. apríl 2023. 

Reglur um áframsendingar á tölvupósti til félagsmanna ADHD samtakanna

Stjórn ADHD samtakanna ákvað  á fundi laugardaginn 30. apríl 2011 reglur um áframsendingu á tölvupósti til félagsmanna.

 ADHD samtökin munu ekki áframsenda póst frá einkaaðilum s.s. fyrirtækjum, félagasamtökum eða öðrum sjálfstætt starfandi.

  1. Samtökin áframsenda einungis tölvupósta frá samstarfsaðilum, menntastofnunum og öðrum opinberum aðilum.
  2. Um aðrar áframsendingar þarf að leita sérstaks samþykkis stjórnar.