Skólakerfið

Réttindi barna í skólakerfinu
Börnum með sérþarfir eru tryggð ýmis réttindi í skólakerfinu. Hér er að finna upplýsingar um þau réttindi eftir skólastigum.
Snemmtæk íhlutun er það kallað þegar reynt er á markvissan hátt að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með frávik í þroska eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Tímabilið frá fæðingu til 6 ára aldurs er það tímabil í lífi barna sem snemmtæk íhlutun er yfirleitt miðuð við. Aðaláhersla er lögð á að íhlutunin hefjist sem fyrst eftir að frávik í þroska greinist. Þegar um einhverfu er að ræða er algengt að þetta sé á leikskólaárum barnsins og hefst þjálfun þar. 
Snemmtæk íhlutun beinist aðallega að vitsmunaþroska, hreyfiþroska, félagslegum stuðningi við fjölskyldu og læknisfræðilegum þáttum. 
Mikilvægt er að byrja snemmtæka íhlutun eins fljótt og auðið er, það er yfirleitt gert með atferlisþjálfun eða skipulagðri kennslu.


Leikskólar
Leikskólabörn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans skv. 22. grein laga um leikskóla nr. 90/2008 og reglugerð 584/2010. Þjónustan skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu sveitafélags, í samráði við foreldra.


Grunnskólar
Grunnskólarnir starfa eftir lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Þar segir m.a. í 17. grein: „Nemendur grunnskóla eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.“
Skólarnir starfa einnig eftir reglugerðum 584/2010 og 585/2010. Í 2. grein reglugerðar 585/2010 segir m.a.:
„Með námi án aðgreiningar er átt við námsumhverfi þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.“
Skólunum ber því að sinna bæði náms- og félagslegum þörfum nemenda með sérþarfir.
Skólar fá ákveða upphæð greidda með börnum sem búa við alvarlegar fatlanir til að ráðstafa eins og þeir telja best í þágu barnsins. Þessi upphæð er mismunandi eftir alvarleika fötlunar.
Í 3. grein reglugerðar 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum segir m.a.:
„Fræðsluyfirvöld í hverju sveitarfélagi skulu fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu. Sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi sérfræðiþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla.“
Við framkvæmd sérfræðiþjónustunnar eiga sveitarfélögin að leggja áherslu á:
• forvarnarstarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda,
• snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar,
• að sérfræðiþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna,
• að styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti í leik- og grunnskólum og starfsfólk þeirra,
• stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu,
• viðeigandi túlkaþjónustu til að tryggja að upplýsingar/ráðgjöf nýtist foreldrum og nemendum,
• góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu og heildarsýn í skólastarfi að leiðarljósi.

Nemendaverndarráð
Séu foreldrar eða umsjónaraðilar ekki sáttir við þá þjónustu sem barnið fær í skólanum geta þeir óskað eftir því við umsjónarkennara eða skólastjóra að málefni nemandans verði tekin upp hjá nemendaverndarráði skv. 19. gr. reglugerðar 584/2010. Í reglugerðinni segir:
18. gr. Skipan nemendaverndarráðs.
Skólastjóri skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjóri eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs.
Í nemendaverndarráði grunnskóla eiga sæti skólastjóri og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir, umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til.
19. gr. Vísun mála til nemendaverndarráðs.
Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.
Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.
Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.
[Að jafnaði] (breytt skv. reglugerð nr. 986/2010) skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.
Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.

20. gr. Starfshættir nemendaverndarráðs.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.
Fara skal með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli um þagnarskyldu og gildandi lög um persónuvernd. Þeir sem sitja í nemendaverndarráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem þeir fá vitneskju um og leynt eiga að fara. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.
Nemendaverndarráð setur sér starfs- og verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um tíðni funda ráðsins. Halda skal fund í nemendaverndarráði ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundir skulu færðir til bókar.


Framhaldsskólar

Framhaldsskólar starfa eftir lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 og reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012. Um framhaldsfræðslu gilda lög nr. 27/2010.
Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur.
Þar að auki eru margir framhaldsskólar með starfsbrautir fyrir fatlað fólk. Nánari upplýsingar er yfirleitt hægt að finna á vefum skólanna.


Fjölsmiðjan
Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk (16-24. ára). Þar gefst fólki tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám.
Vefur Fjölsmiðjunnar


Frístundaheimili og frístundaklúbbar fyrir börn og unglinga í Reykjavík

Frístundaheimili eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þau bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar hefðbundnum skóladegi 6-9 ára barna lýkur. Frístundamiðstöðvar eru í forsvari fyrir starfið í hverju hverfi nema á Kjalarnesi, Úlfarsárdal, Ártúnsholti og Norðlingaholti. Þar sjá skólarnir sjálfir, Klébergsskóli, Dalskóli, Norðlingaskóli og Ártúnsskóli um rekstur frístundaheimilanna.
Þjónusta við börn með sérþarfir er skipulögð í hverju frístundaheimili fyrir sig í samvinnu við foreldra, skóla og aðra fagaðila er tengjast börnunum.
Sótt er um dvöl á frístundaheimili á rafrænu formi í Rafrænni Reykjavík.
Fjórir frístundaklúbbar eru í borginni fyrir börn og unglinga með fötlun á aldrinum 10-16 ára.
Klúbbarnir eru opnir eftir að skóladegi lýkur til kl. 17:00 alla virka daga. Þeir eru einnig opnir kl. 8:00-17:00 í öllum skólafríum fyrir utan vetrarfrí en þá eru þeir lokaðir. Opið er allan daginn í páska-, jóla- og sumarfríum og á starfsdögum og foreldraviðtalsdögum skólanna.
Meginmarkmið starfsins er að bjóða upp á fjölbreytt og spennandi frístundatilboð þar sem uppeldisgildi frítímans eru höfð að leiðarljósi.