Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.
Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2022 fór fram miðvikudaginn 30. mars 2022 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbrut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2021 afgreiddir, viðamiklar lagabreytingar samþykktar og ályktað um þá óviðandu stöðu sem nú ríkir hjá hinu opinbera við greiningar og þjónustu við fólk með ADHD.
Formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2021 og framkvæmdastjórinn, Hrannar Björn Arnarsson kynnti ársreikning félagsins - skýrsla og ársreikningur fyrir árið 2021. Þrátt fyrir talsverða röskun á starfsemi samtakanna vegna COVID-19 gekk reksturinn vel og samtökin héldu áfram að vaxa. Félagsmönnum fjölgaði úr 3088 í 3616 eða um 17%. Starfsemin var að miklu leyti flutt á netið þar sem mikil og góð þátttaka var á ýmsum viðburðum og viðskipti í gegnum vefverslun samtakanna jókst talsvert. Fylgjendur samtakanna á Facebook eru nú 14.912 og fjölgaði um ríflega 29% á árinu.
Á árinu voru stofnuð ný útibú samtakanna á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum auk þess sem útibúin í Vestmannaeyjum, Austurlandi og á Akureyri héldu úti starfsemi eins og mögulegt var vegna COVID. Hlaðvarp samtakanna, Lífið með ADHD hélt áfram göngu sinni, spjall- og fræðslufundir voru haldnir eins og aðstæður leyfðu og árlegur vitundarmánuður var haldinn með hefðbundnu sniði, að þessu sinni með áherslu á tómstundir, íþróttir og ADHD.
Í aðdraganda alþingiskosninga beittu samstökin sér með margvíslegum hætti fyrir baráttumálum samtakanna og þau ánægjulegu tímamót urðu fyrir kosningarnar, að tilkynnt var um stóraukið fjármagn til greininga og þjónustu við fólk með ADHD og nýtt fyrirkomulag þjónustunnar við fullorðna. Á árinu voru Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna veitt í fyrsta sinn og veitti Urður Njarðvík þeim viðtöku við hátíðarlega athöfn. Á árinu keyptu samtökin útgáfurétt bókanna Hámarksárangur í námi með ADHD og verkefnabók með sama nafni. Nýtt námskeið, TÍA - tómstundir, íþróttir og ADHD hóf göngu sína og umtalsverð aukning var á öðrum námskeiðum á vegum samtakanna.
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á lögum ADHD samtakanna á fundinum, aðalega í þeim tilgangi að aðlaga þau nýsamþykktum lögum um félög til almannaheilla, en stjórn samtakanna mun í framhaldinu sækja um slíka skráningu fyrir ADHD samtökin.
Jóna Kristín Gunnarsdóttir, varaformaður og Sólveig Ásgrímsdóttir, ritari samtakanna gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa og voru þeim þökkuð innilega fyrir vel unnin störf síðast liðin ár. Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska og hegðunarstöðvar var kjörin nýr varaformaður samtakanna og Björn S. Traustason, framkvæmdastjóri Apoteks Reykjanesbæjar kom einnig nýr inn í stjórn. Við óskum þeim innilega til hamingju með ný hlutverk.
Samþykkt var að árgjald ADHD samtakanna fyrir næsta starfsár yrði óbreytt, kr. 3650,- eða 10 kr fyrir hvern dag ársins og verða kröfur vegna árgjaldsins stofnaðar í heimabanka félagsfólks. Árgjaldið mun áfram veita umtalsverðan afslátt af námskeiðum samtakanna, af vörum í vefverslun ofl.
Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta til ársins 2024 auk varaformanns til ársins 2023 en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara.
Stjórnin er nú þannig skipuð:
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður (kosin til aðalfundar 2023)
Gyða Haraldsdóttir, varaformaður (kosinn til aðalfundar 2023)
Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (kosin til aðalfundar 2024)
Tryggvi Axelsson, ritari (kosin til aðalfundar 2024)
Sigrún Jónsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024)
Bóas Valdórsson, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2023)
Ása Ingibergsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024)
Varamenn :
Björn S.. Traustason, (kosin til aðalfundar 2024)
Bergþór Heimir Þórðarson, (kosin til aðalfundar 2023)
Nefang stjórnar er: stjorn@adhd.is
Á fundinum var að síðustu samþykkt ályktun um þá óviðandu stöðu sem nú ríkir hjá hinu opinbera við greiningar og þjónustu við fólk með ADHD og bent á þau miklu tækifæri sem felast í yfirstandandi breytingum, ef nægt fjármagn fylgir nýju stjórnkerfi. Yfirskrift ályktunarinnar var enda
Óbreytt ástand eða besta land í heimi - tækifærið er núna!