GPS námskeið fellur niður

Fyrirhugað GPS sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stelpur fellur niður vegna dræmrar þátttöku.

Spyr um vinnu starfshóps um þjónustu við börn með ADHD

Hver var afrakstur starfshóps um meðferð og þjónustu við börn með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) og skyldar raskanir sem skipaður var af heilbrigðisráðherra 27. maí 2016? Þannig spyr Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar og formaður flokksins. Í fyrirspurn Þorgerðar til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra er ennfremur spurt hvers vegna starfshópurinn hafi ekki skilað og hvort ætlunin sé að kalla hópinn saman til að ljúka verkefninu.

Ávísun og afgreiðsla ADHD lyfja - Breytingar taka gildi 3. apríl 2018

Ný reglugerð um ávísun eftirritunarskyldra lyfja, þar með talið ADHD lyfja, tekur gildi 3. apríl 2018. Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að ávísa allt að 12 mánaða magni lyfja í hvert sinn en að hámarki má afgreiða til sjúklings allt að 30 daga skammt í senn, nema aðrar takmarkanir gildi. Óheimilt er að ávísa ADHD lyfjum [metýlfenídat] nema fyrir liggi lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling frá Sjúkratryggingum Íslands.

Spjallfundur í kvöld: ADHD og fjármál

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld, miðvikudaginn 31. janúar 2018 kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður fullorðnum með ADHD. Yfirskrift fundarins er "ADHD og fjármál". Umsjón hefur Haukur Hilmarsson. Allir eru velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Nýtt lyf við ADHD laust við aukaverkanir

Nýtt lyf við athyglisbresti með ofvirkni, sem byggist á uppgötvun íslensks læknis, er nú í þróun og eru vonir bundnar við að það komi á markað á næstu árum. Lyfið hefur ekki mælanlegar aukaverkanir og ekkert bendir til þess að það gæti verið fíknivaldandi. RÚV greindi frá.

GPS-námskeið fyrir stelpur - Skráning í fullum gangi

ADHD samtökin bjóða upp á sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stelpur í 8. til 10. bekk. Námskeiðið hefst laugardaginn 3. febrúar 2018 en foreldrakynning verður fimmtudaginn 1. febrúar. Aðeins eru tíu sæti í boði. Skráning er hafin á vef ADHD og kostar námskeiðið kr. 32.500,-

Spjallfundur í kvöld

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld, miðvikudaginn 17. janúar 2018 kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD. Yfirskrift fundarins er "Svefnavandi barna, dagleg rútína". Umsjón hefur Drífa Björk Guðmundsdóttir. Allir eru velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Ávísun ADHD lyfja - Engar breytingar hafa tekið gildi

Engar breytingar hafa tekið gildi vegna ávísunar nokkurra eftirritunarskyldra lyfja, þar með talið ADHD lyfja. Svo virðist sem einhverjir lyfsalar og læknar séu farnir að vinna samkvæmt hugmyndum að breytingum sem Lyfjastofnun fyrirhugaði en þeim áætlunum var frestað um óákveðinn tíma. Unnið er að útfærslu breytts fyrirkomulags í samráði við fagaðila og verður sú útfærsla kynnt með góðum fyrirvara. Ávísanir ADHD lyfja og afgreiðsla þeirra, eiga því að vera með óbreyttu sniði.

Gleðilegt ár - Spjallfundir að hefjast

ADHD samtökin senda félagsmönnum og landsmönnum öllum óskir um farsæld á nýju ári og þakka hlýhug og stuðning á liðnum árum. Starfið er að komast á fullan snúning, spjallfundir hefjast um miðjan mánuð og námskeið verða auglýst innan tíðar.

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk ADHD samtakanna óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og velfarnaðar á komandi ári, með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða. Velunnurum eru færðar sérstakar þakkir fyrir hlýhug í garð samtakanna. Skrifstofa ADHD Samtakanna verður lokuð frá og með fimmtudegi 21. desember. Skrifstofan opnar að nýju þriðjudaginn 2. janúar 2018 kl. 13:00