ADHD samtökin tóku á móti sálfræðinema, Silju Karen Sveinsdóttur frá Háskólanum í Reykjavík í starfsnám á haustönn 2024 og var henni falið að afla upplýsinga frá stærstu háskólum landsins.
Markmið verkefnisins var að safna upplýsingum um hvaða stuðningur og úrræði eru í boði í háskólum hérlendis, hvað hefur reynst nemendum vel, hvernig bæta má þjónustu og mæta þörfum nemenda með ADHD og um leið styðja þá í námi. Í því skyni var spurningalisti sendur á hvern og einn skóla, ásamt því að vera fylgt eftir með samtali ef eitthvað var óskýrt. Að auki var útbúin könnun fyrir háskólanema.
Þátttakan í könnuninni var nokkuð góð og ýmis gagnleg svör bárust. Þátttakendur voru almennt sammála um að finnast ADHD hafa áhrif á háskólanámið, einbeitingu í kennslustundum og frammistöðu á prófum. Í könnuninni var einnig spurt hvaða úrræði nemendur myndu vilja nýta sér ef það væri í boði í skólanum. Langflestir þátttakendur greindu frá því að þeir myndu vilja nýta sér lengri próftíma, aðlagað prófumhverfi, hlé meðan á prófi stendur, aðstoð við skipulagningu á verkefnum og prófum, sveigjanleg verkefnaskil og aðgang að lesefni á rafrænu- eða hljóðbókaformi. Einnig greindu þátttakendur frá að þeir myndu vilja nýta sér námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu í boði skólans.
|
 |
Önnur spurning í könnuninni snéri að því hvað nemendur telja að háskólar hér á landi geti gert betur til þess að auka enn frekar við stuðning við nemendur með ADHD. Þátttakendur voru almennt sammála um að finnast vera skortur á fræðslu um ADHD meðal kennara og annarra starfsmanna skólanna. Stór hluti þátttakenda greindi frá að upptökur af fyrirlestrum væru nauðsynlegar og myndu nýtast vel háskólanemendum með ADHD, stuðla að meiri sveigjanleika og betri námstækni. Einnig nefndu þátttakendur að ADHD markþjálfi á vegum skólans, fjölbreyttari kennsluaðferðir, sveigjanleiki í námi og styttri og hnitmiðaðri kennslustundir væru nauðsynlegur þáttur í að hámarka námsárangur háskólanemenda með ADHD. Þátttakendur greindu einnig frá að þörf sé á að auðvelda ferlið fyrir nemendur, til að sækja um sérúrræði í skólanum, ekki síst þá sem bíða eftir ADHD greiningu.
Óskað var m.a. eftir upplýsingum um hvaða úrræði væru í boði fyrir nemendur með ADHD til að mynda hvort boðið væri upp á fræðslu um ADHD fyrir kennara og nemendur og hvort boðið sé upp á formlegar leiðir/stuðningsúrræði til aðstoðar við undirbúning verkefnaskila eða prófa.
Hér að neðan er samantekt af úrræðum skólanna.
Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn á Akureyri
Háskóli Íslands
Háskólinn á Bifröst