18.03.2016
"Skyldur stjórnvalda eru ótvíræðar á þessu sviði, skýrar leiðbeiningar, áætlun og stefnu skortir og sá langi biðtími sem einkennir þjónustuna er óviðunandi og líklegur til að hafa þungbærar og langvarandi afleiðingar. Ég skora á ráðherra að taka þessi skilaboð alvarlega og bregðast snöfurmannlega við", segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar í grein á visir.is. Greinin ber yfirskriftina "Er ég með greiningaráráttu?" og er þar vitnað til ummæla ráðamanna um meintar ónauðsynlegar greiningar fagaðila vegna þroska-, geð- og lyndisraskana barna og biðísta sem börn mega sæta.
16.03.2016
ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld miðvikudaginn 16. mars kl. 20:30 fyrir foreldra barna og ungmenna með ADHD. Fundurinn verður í sal ADHD á 4.hæð að Háaleitisbraut 13. Yfirskrift fundarins er ADHD og fylgiraskanir og leiðir Drífa Björk Guðmundsdóttir fundinn.
Allir velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
14.03.2016
Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2016 verður haldinn í húsnæði samtakanna, Háaleitisbraut 11-13, í kvöld mánudaginn 14. mars 2016 klukkan 20:00. Meðal venjulegra aðalfundarstarfa er kosning stjórnar samtakanna fram að aðalfundi 2017. Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum og tveimur til vara. Formann, varaformann, gjaldkera og ritara skal kjósa sérstaklega.
11.03.2016
ADHD samtökin bjóða upp á fræðslufyrirlestur um ADHD og fjármál, mánudaginn 4. apríl. Haukur Hilmarsson, ráðgjafi fjallar um fjármálahegðun, með sérstöku tilliti til einstaklinga með ADHD, leiðir og lausnir. Fyrirlesturinn verður í Háskólanum í Reykjavík, sal V102 og hefst klukkan 20:00.
09.03.2016
ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld miðvikudaginn 9. mars kl. 20:30 fyrir fulloðna með ADHD að Háaleitisbraut 13. Drífa Pálín Geirsdóttir leiðir fundinn en yfirskrift hans er félagsleg samskipti. Allir velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
08.03.2016
Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2016 verður haldinn í húsnæði samtakanna, Háaleitisbraut 13, mánudaginn 14. mars n.k. klukkan 20:00. Meðal venjulegra aðalfundarstarfa er kosning stjórnar en nú háttar svo til að kjósa þarf í sjö sæti í aðal- og varastjórn. Öllum fullgildum félagsmönnum ADHD er heimilt að bjóða sig fram til setu í stjórn samtakanna.
06.03.2016
ADHD samtökin bjóða upp á sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stráka í 8. til 10. bekk. Námskeiðið hefst laugardaginn 12. mars 2016 en foreldrakynning verður fimmtudaginn 10. mars. Námskeiðið er haldið í sal ADHD að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og er skráning hafdin á vef ADHD.
02.03.2016
Fulltrúar Leikhópsins afhentu í dag ADHD samtökunum fjárstyrk en um er að ræða aðgangseyri á tónleika sem Leikhópurinn efndi til á dögunum. ADHD samtökin færa Leikhópnum hjartans þakkir fyrir stuðninginn við málstað samtakanna og allra þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og ekki síst þann hlýhug sem hópurinn sýnir í verki.
01.03.2016
Fjölbreyttur og næringarríkur matur, í samræmi við opinberar ráðleggingar um mataræði og reglulegir matmálstímar, stuðla að góðu næringarástandi sem er mikilvægt fyrir vöxt og þroska og vellíðan allra barna. Meðferð við ADHD og einhverfu með sérstöku mataræði er ekki ráðlögð nema þegar grunur er um óþol og ætti þá að vera í samráði við næringarráðgjafa og aðra fagaðila. Embætti landlæknis birtir þessar upplýsingar á vef sínum í dag.
23.02.2016
Átta frjáls félagasamtök, sem öll vinna á einn eða annan hátt í þágu barna og unglinga, taka heilshugar undir hvert orð sem fram kemur í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Félögin skora á stjórnvöld að bregðast nú þegar við athugasemdum sem fram eru settar í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Frjáls félagasamtök hafa til fjölda ára, ítrekað vakið athygli á ástandinu og afleiðingum aðgerðaleysis. Í áskorun félaganna segir að nú sé lag til að láta verkin tala og þau treysti því að ráðamenn sýni skilning sinn í verki.