25.09.2023
Stjórnandi fundarins verður Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna, en hann hefur verið í framlínu umræðunnar um ADHD lyf og akstur ökutækja. Einnig mun Anna Margrét Kristjánsdóttir lögfræðingur sitja fyrir svörum gesta.
Á fundinum verður farið yfir röð atvika sem kom fram í fréttum fyrir stuttu um handtöku manns sem var á ADHD lyfjum undir stýri. Það eru margir sem geta tengt við þessa umræðu og bjóðum við öllum þeim sem vilja taka þátt í spjallinu og fræðast hjartanlega velkomin. Beint streymi fyrir félagsfólk á öllu landinu.
Fundurinn verður haldinn á Háaleitisbraut 13, 4. hæð.
Öll velkomin, félagsmenn og aðrir.
Fundurinn verður haldinn 27. september kl. 20:00-22:00 Háaleitisbraut 13, 4.hæð
Öll velkomin, félagsmenn og aðrir.
20.09.2023
For English-speaking adults and parents of children with ADHD
The purpose of the webinar is to provide an overview and practical insight into attention deficit hyperactivity disorder in adults and children. The two-part webinar is designed to cater to participants with the necessary information and tools to better understand their ADHD or/and support their kids.
The Two-Part webinar is two hours long each and takes place the next two saturdays.
11.09.2023
Á undanförnum árum, nánar tiltekið síðan ný umferðarlög nr. 77/2019 voru samþykkt og tóku gildi í upphafi árs 2020, hefur ítrekað komið fyrir að fólk með ADHD sem notar ADHD lyf hefur orðið fyrir óþægindum og jafnvel verið dæmt eða beitt viðurlögum fyrir ólöglegan akstur undir áhrifum lyfjanna, þrátt fyrir að þau séu tekin samkvæmt læknisráði. Ástæður þessa má rekja til ófullnægjandi og gallaðs orðalags undanþáguákvæðis, sbr. 8. og 9. mgr. 101. gr. umfl. nr. 77/2019 sem heimilar undanþágu frá viðurlögum vegna aksturs undir áhrifum lyfja, sem annars eru bönnuð á íslensku forráðasvæði, sbr. viðauki 1 í reglugerð nr. 233/2001. Ökumaður þarf að uppfylla öll þau skilyrði samkvæmt ákvæðinu svo undanþágan eigi við.
Eitt af skilyrðum er að ökumaður hafi læknisvottorð meðferðis við stjórn ökutækis, þar sem fram kemur að hann þurfi að neyta þeirra lyfja sem í blóði hans mælast og sé þrátt fyrir það fær um að stjórna ökutæki örugglega. Ef efni eða lyf mælast í blóði ökumanns sem ekki hefur á sér fyrrnefnt læknisvottorð, en uppfyllir að öðru leyti öll önnur skilyrði, er hann talinn sekur um akstur undir áhrifum bannaðra efna í blóði. Í kæruferli hefur jafnframt borið við að lögreglan neiti alfarið að taka við slíku læknisvottorði eða öðrum gögnum sem staðfesta lyfjameðferð viðkomandi. Þetta ófremdarástand hefur nú varað í hálft fjórða ár. Ástandið er með öllu óásættanlegt og nauðsynlegt að löggjafinn taki þetta til endurskoðunar tafarlaust.
ADHD samtökin hafa á liðnum árum leitað leiða til að bregðast við ástandinu, enda hafa fjölmörg mál ratað á borð samtakanna þessu tengt. Ítarleg fyrirspurn til Ríkislögreglustjóra var loks svarað eftir 10 mánuði, með fyrirslætti af ýmsu tagi og tilvitnun í dómafordæmi sem hverjum má ljóst vera að tengjast málum þar sem klárlega var um misnotkun á fíkniefnum og/eða lyfjum að ræða. Umfangsmikil rannsóknarvinna á íslenskum lögum, dómum og lagaumhverfinu í nágrannalöndum okkar, hefur leitt okkur að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt er að breyta núgildandi umferðarlögum, setja reglugerð á grundvelli þeirra, sbr. 6. mgr. 48. gr. umfl. nr. 77/2019, breyta verklagi lögreglunnar sem og setja skýra verkferla þar að lútandi með formlegum hætti hvað varðar fólk sem notar lyf vegna ADHD samkvæmt læknisráði.
10.09.2023
“Í næstu viku munu ADHD samtökin birta ítarlegt lögfræðiálit þar að lútandi með tillögum um lagabreytingar og innihald reglugerðar ásamt fjölda dómafordæma.
Um leið og við hvetjum ráðherra innviða og dómsmála sem og Alþingismenn til að kynna sér tillögur samtakanna – og bregðast við þeim án tafar – lýsum við því yfir að ADHD samtökin eru boðin og búin til hverskyns samráðs og samstarfs um framvindu málsins. Núverandi ástand er ólíðandi og við því verður að bregðast án tafar!”- Vilhjalmur Hjalmarsson formaður ADHD samtakanna.
Lesið greinina hér: https://www.visir.is/g/20232460369d/bleikur-radherrafill-i-umferdinni?fbclid=IwAR3EC-rUWVEeJUlrkaEMv3R0YtX60odba4mGMf6RDQpOTVxCG-yS9MyO18s
09.09.2023
Vilhjalmur Hjalmarsson formaður ADHD samtakanna bregst við órökstuddum og fordómafullum yfirlýsingum Óttars Guðmundssonar um ADHD, greiningar og lyfjanotkun.
“Ég skil hins vegar að Óttar vinnur með litlum hópi sem oft verður illa úti í dagsins orrahríð. Og einmitt þess vegna bið ég Óttar skemmstra orða að hætta að ala á óþarfa fordómum. Hætta að líma vandamál þeirra fáu sem þurfa stórt inngrip vegna fíknivanda, við þann stóra fjölda okkar hinna með taugaþroskaskanir á borð við ADHD, sem viljum og eigum sannanlega rétt á að fá að blómstra í friði.
Og hérna ... Óttar – ég stend heilshugar við mín fyrri orð: Með skrifum þínum í Læknablaðinu og framsögu í Kastljósi fimmtudagskvöldsins, þá setur þig niður. Þín framsetning einkennist af hroka og vanþekkingu.”
05.09.2023
Katrín Ruth Þorgeirsdóttir ráðgjafaþroskaþjálfi og hegðunarráðgjafi fer yfir nokkrar aðferðir og leiðir sem hægt er að nota til að kenna, þjálfa og styðja við daglegar rútínur.
Fundurinn verður haldinn þann 13. september í Akureskóla og hefst klukkan 20:00.
01.09.2023
ADHD samtökin standa fyrir tveggja daga alþjóðlegri afmælisráðstefnu um ADHD sem nefnist „Betra líf með ADHD“ . Ráðstefnan fram fer á Grand Hótel Reykjavík dagana 26. og 27. október 2023.
Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á áskorunum sem einstaklingar með ADHD glíma við, ásamt því að kynna ýmsar lausnir til að takast á við afleiðingar hennar. Kunnir erlendir og íslenskir fyrirlesarar halda erindi og umfjöllunarefnin snerta meðal annars málefni barna, ungmenna og fullorðinna einstaklinga. Meðal fyrirlesara eru Ari Tuckman, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, Kathleen Nadeau, sálfræðingur, Saaskia van der Oord, prófessor í sálfræði, Amori Yee Mikami, prófessor í sálfræði, Lachenmeier, geðlæknir og Dr. Sandra Koji, geðlæknir. Jafnframt verða kynntar til sögunnar nýjar íslenskar rannsóknir um ADHD. Ráðstefnan gagnast bæði fullorðnum, kennurum og öðru fagfólki svo við hvetjum öll til þess að mæta.
Boðið verður upp á streymi fyrir þátttakendur sem ekki eiga heimagengt á ráðstefnuna ásamt því að boðið verður upp á rauntímatúlkun frá ensku yfir á íslensku og öfugt.
Almennt verð á ráðstefnuna er kr. 24.900 en félagsfólk ADHD samtakanna greiðir aðeins kr. 19.900, innifalið í verðinu eru veitingar.
Opnað hefur verið fyrir skráningar og hægt er að skrá sig ásamt því að lesa frekar um ráðstefnuna hér.
30.08.2023
ADHD og Ég eru fjögurt helgarnámskeið skipt eftir aldri og kyni. Hvert námskeið er samtals 5 klst. og er hvorum degi skipt upp í minni verkefni og umræður með reglulegu uppbroti og heilahvíld. Námskeiðin hafa þau markmið að þátttakendur öðlist meiri skilning á ADHD röskuninni og hvernig hægt er að yfirstíga hindranir sem hún veldur, fái fleiri verkfæri sem nýtast í samskiptum og stuðla að bættri líðan, skilji að öll geri mistök og hvernig má nýta þau til að læra af og þekkja betur tilfinningar sínar og kynnist aðferðum til að efla tilfinningastjórnun.
Eftir námskeiðið fá aðstandendur upplýsingar og leiðbeiningar um efnið sem farið er yfir á námskeiðinu og tillögur að áframhaldandi vinnu með sínu barni. Umsjónarmenn námskeiðsins eru Jóna Kristín Gunnarsdóttir grunnskólakennari og Paula Newman, BA sálfræði og MPH Lýðheilsufræði.
25.08.2023
Haustnámskeið ADHD samtakanna!
Aldrei áður hefur verið jafn mikið framboð á námskeiðum hjá ADHD samtökunum. Áfram verða á dagskránni námskeið sem hafa verið í boði með einum eða öðrum hætti á liðnum árum og hafa hlotið mikið lof meðal þátttakenda en nú bætast einnig við ný og spennandi námskeið.
Félagsmenn ADHD samtakanna njóta sérstakra afsláttarkjara á öllum námskeiðunum, en fjöldi þátttakenda er takmarkaður - fyrstur kemur fyrstur fær.
Nánar má fræðast um námskeiðin hér
22.08.2023
Fræðslufundur í Eyjum - ADHD og parasambönd.
Fræðslu- og spjallfundur þar sem skoðað verður ADHD og parasambönd.
Farið verður í birtingamyndir jákvæðra og neikvæðra samskipta í samböndum fólks með ADHD, sem og mikilvægi þekkingar á röskuninni, þá fyrir báða aðila í sambandinu. Skoðað verður hvernig hægt er að takast á við áskoranir með jákvæðum hætti til að bæta samskipti.
Fræðslufundurinn fer fram 31. ágúst kl. 20:00 - 21.00. Fundurinn verður haldinn á The Brothers Brewery við Bárustígur 7.
Sigrún Jónsdóttir ADHD og einhverfu markþjálfi sér um fræðslu og stýrir fundinum.