Listaháskóli Íslands
Ítarlegar upplýsingar um sértækan stuðning í námi vegna viðbótarþarfa má finna á heimasíðu Listaháskóla Íslands.
Markmið skólans er að koma til móts við hvern og einn nemanda eins og kostur er án þess að dregið sé úr námskröfum og /eða hæfniviðmiðum námskeiða.
Námsráðgjöf skólans býður upp á persónulega ráðgjöf og eftirfylgd fyrir nemendur með fötlun eða sértæka námsörðugleika. Lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða aðstoð og stuðning. Nemendur með ADHD eða aðra sértæka námsörðugleika geta óskað eftir aðstoð námsráðgjafar við m.a. að halda utan um skipulag námsins, fá yfirsýn og/eða stuðning við að efla færni, læra ýmis bjargráð sem stuðning við námið ásamt streituminnkandi aðferðum. Nemendur skólans geta sótt um styrk fyrir sálfræðikostnaði.
Listaháskólinn býður, í samstarfið við Háskólann í Reykjavík, upp á námskeiðið “Sjálfstraust í námi” ásamt fræðslu um námstækni, tímastjórnun, árangursríka hópavinnu o.fl.. Öðru hvoru er boðið upp á fræðslu sértsaklega ætlaða nemendum með ADHD og aðra námsörðugleika sem kallast “Virkar heilinn í mér öðruvísi?”. Námsráðgjöf fer inn í deildir skólans með fræðslu um námstækni sem og kynningu á þjónustu námsráðgjafar. Jafnframt er námsráðgjöf með síðu á Canvas sem ber heitið “Námsráðgjöf - Upplýsinga – og fræðsluvefur” og er öllum opinn sem stunda nám við skólann.
Nemendur sem nýta sér einstaklingsviðtöl og/eða stuðning sem í boði er geta fengið eftirfylgd með framförum í námi óski þau þess. Ef nemandi óskar eftir að námsráðgjafi tali sínu máli innan deildar, s.s. vegna ákveðna málefna, er það gert í samstarfi við nemandann, t.d. við að útskýra hamlanir og aðlaganir í námi.
Kennarar eru meðvitaðir um að veita nemendum persónulega og góða þjónustu og koma til móts við sérþarfir nemenda. Námsráðgjöf Listaháskólans býður kennurum og öðru starfsfólki skólans upp á kynningar á þörfum og þjónustu við nemendur sem þurfa á sértækum stuðning að halda í námi, sé þess óskað.