ADHD samtökin fagna nýju geðheilsuteymi fyrir fanga og uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu um allt land.
ADHD samtökin fagna ákvörðun heilbrigðisráðherra, um að setja á stofn og fjármagna nýtt geðheilsuteymi sem þjónusta mun fanga í öllum fangelsum á Íslandi. Geðheilsuteymið bætir úr afar brýnni þörf, enda er stuðningur og læknisþjónusta á sviði geðmála í mörgum tilfellum forsenda þess að refsivist geti leitt til betrunar og farsællar endurkomu fanga í samfélagið.
Fangar eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu hvað þetta varðar og glíma oft á tíðum við vangreind og ómeðhöndluð vandamál tengd geðheilsu, til að mynda ADHD og aðrar skyldar raskanir.
ADHD samtökin þakka heilbrigðisráðherra fyrir að taka þetta mikilvæga skref í geðheilbrigðismálum fanga, sem og fyrir önnur sambærileg skref í uppbyggingu geðheilbrigðisteyma, vítt og breytt um landið. Þó enn séu gríðarlega mörg verkefni framundan í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustunnar um allt land, ekki síst þegar kemur að greiningum og þjónustu við fólk með ADHD og skyldar raskanir, eru stjórnvöld greinilega á réttri leið í geðheilbrigðismálum og því ber að fagna.
Ályktun, samþykkt af stjórn ADHD samtakanna, 5. desember 2019.