Sumarnámskeið í júní fyrir börn með ADHD

Ný sumarnámskeið fyrir börn með ADHD í júní.
Ný sumarnámskeið fyrir börn með ADHD í júní.

Sumarnámskeið ADHD samtakanna fyrir börn með ADHD.

Í júní munu ADHD samtökin í fyrsta sinn standa fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn með ADHD. Annarsvegar rafíþróttanámskeið fyrir 10-13 ára í samvinnu við rafíþróttadeild Fylkis og hinsvegar námskeið í tölvuleikjagerð og sköpun í Minecraft í samvinnu við Skema í HR, fyrir 7-10 ára. Bæði námskeiðin eru opin öllum kynjum og fá umsjónaraðilar sérstaka fræðslu um ADHD og tómstundastarf með börnum með ADHD. Fjölskyldur félagsfólks í ADHD samtökunum fá veglegan afslátt af þátttökugjaldi.

Tölvuleikjagerð og Minecraft fyrir 7-10 ára börn með ADHD.

ADHD samtökin í samstarfi við Skema í HR bjóða upp á námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft í sumar. Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þetta er fyrsta námskeiðið sem ADHD samtökin og Skema bjóða uppá saman. Námskeiðið er tvískipt. Annars vegar verður tölvuleikjagerð í Scratch og hins vegar sköpun í Minecraft. 

Þátttakendur fá að kynnast Scratch forritunarumhverfinu og læra að skapa, forrita og hanna sína eigin tölvuleiki. Scratch er sérsniðið að byrjendum í forritun en þar er notast við sjónrænt forritunarmál sem byggir á litríkum skipanakubbum. Þátttakendur öðlast grunnþekkingu á forritun, stafrænni hönnun og framkvæmd eigin hugmynda.

Minecraft er vinsæll tölvuleikur þar sem eina takmarkið er eigið hugmyndaflug. Þátttakendur fá að læra grunninn í leiknum, ýmis brögð og brellur og vinna saman við að byggja upp samfélag með öðrum. Þátttakendur spila í sama heimi og geta unnið saman við verkefnavinnu. 

Námskeiðið verður haldið á Háaleitisbraut 13, 4.hæð í húsnæði ADHD samtakanna. Kennsla fer fram í tvær vikur frá 12. - 21. júní, á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10:00-12:30.  Rétt er að taka fram að allir þjálfarar Skemu fara í gegnum ADHD fræðslu hjá samtökunum í þeim tilgangi að mæta betur þörfum þátttakenda. Létt hressing í boði.

Áhersla verður lögð á að læra nýja hluti, hreyfingu, sköpun, teymisvinnu og fjör! 

Nánari upplýsingar og skráning Hér: https://www.adhd.is/is/namskeid/tolvuleikjagerd-og-minecraft-skema-hr-og-adhd-samtokin

 

Rafíþróttanámskeið fyrir 10-13 ára börn með ADHD.

ADHD samtökin og Rafíþróttadeild Fylkis standa fyrir stuttu námskeiði í Rafíþróttum fyrir 10-13 ára börn, stelpur og stráka með ADHD. Æfingatímabilið er frá 12. - 22. júní, átta skipti alls. Æfingar fara fram fjórum sinnum í viku og eru æfingarnar í 90 mínútur í senn. Æfingar eru frá kl. 17:30 - 19:00. Á æfingum hjá Rafíþróttadeild Fylkis er lögð áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild. Iðkendur hita upp og stunda líkamlegar hreyfingu, læra heilbrigða spilunarhætti og vinna saman sem lið.

Fylkir sér fyrir öllum æfingatækjum, leikjum og aðgöngum en þátttakendum er velkomið að spila aðra leiki eða skrá sig inn á sína aðganga. Hámark eru 10 í hverjum æfingahóp. Námskeiðin fara fram í rafíþrótta aðstöðu Fylkis, Norðlingabraut 12. Við hvetjum forráðamenn til þess að vera meðvitaðir um aldursviðmið PEGI. Skráning á æfingar er á ábyrgð forráðamanna og við skráningu er forráðamaður að senda samþykki sitt við því að iðkandinn spili þann leik sem hann hefur verið skráð á æfingar fyrir. 

Nánari upplýsingar og skráning á námskeiðið hér: https://www.adhd.is/is/namskeid/rafithrottir-fyrir-straka-med-adhd-12-17-ara-hopur-1