Hátt í fjörutíu þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hafa ákveðið að hlaupa í
þágu ADHD samtakanna og sett af stað áheitasöfnun. ADHD samtökin eru afar þakklát fyrir þennan stuðning og hvetja alla þá sem
láta sig málefni ADHD einstaklinga varða, að heita á hlauparana okkar.
Þrítugasta Reykjavíkurmaraþonið fer fram næstkomandi laugardag, 24. ágúst.
ADHD samtökin eru eitt 74 góðgerðarfélaga sem þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni
Íslandsbanka geta hlaupið fyrir og um leið vakið athygli á málstaðnum.
Áheitasöfnun fer fram á vefnum hlaupastyrkur.is.
Hér má sjá þá sem höfðu í dag, 20.
ágúst, ákveðið að hlaupa í þágu ADHD samtakanna og hvetjum við alla til að heita á hlauparana og leggja þar með
góðu málefni lið.
Einfalt að safna
Það er einfalt fyrir hlaupara að stofna aðgang á hlaupastyrkur.is og safna áheitum. Byrja
þarf á því að skrá sig í hlaupið á marathon.is. Í
skráningarferlinu er hægt að velja eitt af skráðum góðgerðafélögum en ADHD samtökin eru eitt þeirra, og stofnast þá
viðkomandi sjálfkrafa á hlaupastyrkur.is að skráningu lokinni. Einnig geta skráðir hlauparar farið inn á hlaupastyrkur.is og stofnað aðgang
í örfáum einföldum skrefum.
Hægt er að deila söfnunarsíðu hlaupara á samfélagsmiðlum og hvetja þannig vini og vandamenn til að heita á sig. Hver sem er getur
farið inná hlaupastyrkur.is og heitið á skráða hlaupara.
Hægt er að greiða áheit með kreditkorti, millifærslu eða með því að senda sms
skilaboð.
Um leið og við hvetjum sem flesta til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka minnum við á áheitasöfnun
því samfara.