Elín H. Hinriksdóttir, formaður ADHD samtakanna gerir grein fyrir öflugu starfi samtakanna árið 2019.
Aðalfundur ADHD samtakanna fór fram þriðjudaginn 19. maí 2020. Á fundinum var kjörið í stjórn samhvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2019 afgreiddir og ályktað um brýnustu verkefnin framundan í geðheilbrigðismálum.
Formaður ADHD samtakanna, Elín H. Hinriksdóttir gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2019 og framkvæmdastjórinn, Hrannar Björn Arnarsson reikningum samtakanna. Í máli beggja kom fram að liðið ár var sérstaklega gott fyrir samtökin. Félagsmönnum fjölgaði, starfsemin jókst og fjárhagurinn vænkaðist. Stór verkefni eru framundan og mikilvæg hagsmunamál sem brýnt er að berjast fyrir, ekki síst bættu aðgengi að greiningum og þjónustu fyrir fólk með ADHD og breyttum viðhorfum til lyfjamála, ADHD og vinnumarkaðarins ofl. Góður rómur var gerður að öflugu starfi samtakanna árið 2019 og var stjórn og framkvæmdastjóra færðar þakkir fyrir vel unnin störf..
Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta, fjögur í aðalstjórn og eitt sæti varamanns, til ársins 2022, en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara. Elín Hrefna Garðarsdóttir, geðlæknir var endurkjörin sem gjaldkeri, Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur var endurkjörin sem ritari, Jóna Kristín Gunnarsdóttir, kennari var endurkjörin sem aðalmaður í stjórn og Sigrún Jónsdóttir, ADHD markþjálfi var kjörin í aðalstjórn, en hún var áður varamaður. Anna Rós Jensdóttir, félagsráðgjafi var kjörin sem varamaður, en hún er ný í stjórn. Dr. Drífa Björk Guðmundsdóttir, gaf ekki kost á sér til endurkjörs, en hún hefur starfað í stórn samtakanna um árabil. Voru henni færðar sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu samtakanna.
Á fundinum var samþykkt ályktun um stöðu geðheilbrigðismála og brýnustu verkefnin framundan, þar sem aukinni áherslu stjórnvalda á geðheilbrigðismál var fangað og þau hvött til frekari dáða á því sviði. Ályktunin er svohljóðandi:
Geðheilbrigðismál í forgang
Aðalfundur ADHD samtakanna, haldinn 19.05.2020 fagnar aukinni áherslu stjórnvalda á geðheilbrigðismál og þeirri vitundarvakningu sem orðin er um mikilvægi geðheilbrigðis og andlegrar heilsu. Stóraukin þjónusta á þessu sviði er eitt brýnasta lýðheilsuverkefni samfélagsins næstu misserin.
Alvarlegar afleiðingar Covid-19 faraldursins, sem enn sér ekki fyrir endann á, kalla einnig á viðamiklar aðgerðir til að koma til móts við þá hópa samfélagsins, sem hafa orðið illa úti, ekki bara efnahagslega, heldur einnig vegna röskunar á námi, einangrunar eða andlegra áfalla ýmiskonar. Einstaklingar með ADHD og aðrar skyldar raskanir eru í einstaklega viðkvæmri stöðu að þessu leyti.
Stóraukið fjármagn þarf að setja í greiningar og meðferðarúrræði vegna ADHD, bæði hjá fullorðnum og börnum og eyða núverandi biðlistum eftir greiningum. Tveggja til þriggja ára bið eftir greiningu og meðferð er óviðunandi.
Einnig er mikilvægt að skólar, bæði grunn- og framhaldsskólar, fái sérstakan stuðning til að sinna þeim nemendum sem hafa dregist aftur úr vegna röskunar á skólastarfi af völdum Covid-19.
Þá þarf að tryggja að sálfræðiþjónusta sé veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta og að slík þjónusta verði felld undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands eins fljótt og auðið er.
Bætt lífsskilyrði fólks með ADHD bæta lífsgæði allra – ekki eingöngu þeirra með ADHD, heldur fjölskyldna þeirra, nærsamfélags og samfélagsins alls. Greining og aðgengileg úrræði vegna ADHD er einhver besta samfélagslega fjárfesting sem heilbrigðis- og skólakerfið geta ráðist í á komandi árum.