Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhendir Sólveigu Ásgrímsdóttur Hvatningarverðlaun ÖBÍ.
Sólveig Ásgrímsdóttir, hlaut Hvatningarverðalun ÖBÍ í ár, fyrir að skrifa bókina Ferðalag í flughálku - unglingar og ADHD og fyrir mikilvægt framlag hennar til að auka skilning og bæta lífsskilyrði fólks með ADHD. ADHD samtökin voru jafnframt tilnefnd til verðlaunanna í flokki aðildarfélaga ÖBÍ, fyrir útgáfu bókarinnar.
Hvatningarverðlaun ÖBÍ, eru veitt einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum og félagasamtökum, sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Hvatningarverðlaunin voru afhent af forseta Íslands, Hr. Guðna Th. Jóhannessyni, við hátíðalega athöfn á Alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.
Í rökstuðningi verðlaunanfendarinnar segir m.a. um val Sólveigar Ásgrímsdóttur:
"Fyrir að skrifa bókina Ferðalag í flughálku, sem er fyrsta bókin á íslensku sem fjallar um ADHD og unglinga og hvað þeir eru að takast á við.
Sólveig hefur sinnt greiningu, meðferð og rannsóknum á ADHD og hegðunarvandamálum barna og ungmenna í áratugi.
Einnig hefur hún vakið athygli á málefnum eldra fólks með ADHD með skrifum sínum í fjölmiðlum.
Sólveig bendir á að mikilvægt sé að muna að hrósa börnum með ADHD og að það sé í höndum fullorðinna að taka stjórn á samskiptunum."
Sólveig Ásgrímsdóttir hefur um nokkurra ára skeið setið í stjórn ADHD samtakanna, nú sem ritari og er afkastamikill fyrirlesari á spjallfundum, námskeiðum og fræðslufundum ADHD samtakanna. ADHD samtökin óska Sólveigu Ásgrímsdóttur, hjartanlega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu og hlakka til áframhaldandi samstarfs við hana um málefni fólks með ADHD.
Bók Sólveigar, Ferðalag í flughálku - unglingar og ADHD er hægt að kaupa í vefverslun ADHD samtakanna og öllum helstu bókabúðum.