Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra segir að starfsemi ADHD-teymisins á Landspítala verði tryggð á
næsta ári. Hvernig það verði gert eða í hvaða formi segist ráðherrann ekki hafa svör við nú.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar þingsins spurði ráðherra á
Alþingi í gær um framtíð teymisins. Á fjárlögum næsta árs er ekki gert
ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til verkefnisins en um 40 milljónir króna kostar að reka teymið á ári. Frá því
teymið tók til starfa vorið 2013 hafa því borist 710 tilvísanir eða nálægt 40 í hverjum mánuði. Reynsla teymisins
sýnir að um 59% þeirra sem vísað er á teymið fá ADHD greiningu. Teymið hefur lokið skimun hjá um 260 sjúklingum en greiningu hjá 158 sjúklingum.
ADHD teymið í dag annar u.þ.b. 350 tilvísunum á ári og því hefur myndast
biðlisti. Á fimmta hundrað sjúklinga bíða eftir að verða kallaðir til skimunar og / eða greiningar hjá teyminu og er biðtíminn
nú um 10 mánuðir. Það undirstrikar svo ekki verður um villst hve mikil þörf var og er fyrir þjónustu teymisins.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði að starf ADHD-teymisins væri afar mikilvægt. Þeir sem
væru með ADHD og fengju ekki greiningu glímdu við ýmsan vanda. Þeir ættu við námsörðugleika að etja, þeir störfuðu undir
getu og lifðu við kvíða. Fullorðið fólk sem greinst hefði með ADHD hefði öðlast nýtt líf eftir að það var
búið að fá greiningu og hefði fengið í kjölfarið rétta meðferð og lyf.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og Álfheiður Ingadóttir,
þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lögðu öll áherslu á mikilvægi teymisins.
Heilbrigðisráðherra tók undir það að verkefni ADHD-teymisins væru brýn.
"Það hefur ekki verið lagt mat á kostnað ef ADHD-teymið væri ekki starfandi, það
er einfaldlega gert ráð fyrir að sú starfsemi haldi áfram," sagði Kristján Þór
Júlíusson, heilbrigðisráðherra í umræðum á Alþingi í gær.
Grein um ADHD
teymið
Viðtal við Dr. Ara Tuckman um ADHD og
fullorðna
Hver
króna skilar sér margfalt - Frétt um ADHD og fullorðna
Spurt um ADHD
teymið á Alþingi - Frétt