Segir minni stuðning í skóla en á frístundaheimili

Anna Lilja Þórisdóttir skrifar eftirfarandi á mbl.is Sjá frétt hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/02/fa_meiri_studning_eftir_skola/

Skólastjóri grunnskóla í Reykjavík segir það skjóta skökku við að nemendur, sem eigi erfitt með að fylgjast með kennslu og eigi í erfiðleikum með hegðun fái lítinn sem engan stuðning meðan á kennslu standi. Aftur á móti virðist nóg um stuðning á frístundaheimili skólans eftir að skóladegi ljúki.  Skólastjórinn bendir á í þessu sambandi að öfugt við dvöl á frístundaheimili séu börn skólaskyld.

Að sögn skólastjórans er aðallega um að ræða börn með ADHD og ýmsar hegðunarraskanir. 

„Margir, bæði foreldrar og kennarar, eiga erfitt með að skilja ástæðuna fyrir því að nemendur, sem kennarar hafa átt í vandræðum með allan daginn, án þess að fá nokkurn stuðning, skuli fá nánast „mann á mann aðstoð“ þegar þau fara yfir ganginn í frístundaheimilið,“ segir skólastjórinn. 

Vildi sjá meira jafnræði

En er ekki gott að börnin fái aðstoð einhvers staðar, fyrst þau fá hana ekki inni í skólastofunni? „Jú, auðvitað er það frábært.  En við setjum spurningamerki við það að börnin séu oft án aðstoðar á meðan verið er að sinna lögbundinni skólaskyldu, en svo fara þau í tómstundaúrræði sem er valkvætt og þar sé allur sá stuðningur sem þau þurfa á að halda. Við myndum vilja sjá meira jafnræði í þessu. Ég veit ekki hver ástæðan fyrir þessu misræmi er. Kannski er það vegna þess að meiri menntunarkröfur séu gerðar til þeirra sem vinna inni í skólastofunni en í frístundaheimilunum. “

En fá þeir nemendur, sem eru með greiningar, ekki þá aðstoð sem þeir þurfa í kennslustundum? „Auðvitað er reynt að aðstoða öll börn eins og hægt er. En það dugar ekki alltaf til. Svo má ekki líta fram hjá því að aðstæðurnar inni í skólastofunni eru yfirleitt miklu meira krefjandi fyrir þessa krakka en að vera á frístundaheimilunum, án þess að ég vilji á nokkurn hátt draga úr þeirri frábæru þjónustu sem þar er verið að veita.“

Skólastjórinn segist hafa heyrt að til standi að endurskoða eigi þetta fyrirkomulag og að fyrirspurn hafi verið lögð fram á fundi menntaráðs Reykjavíkur um það.

Mismunandi þarfir 

„Það eru örugglega einhver tilvik um að börn séu að fá mismunandi stuðning eftir því hvort þau eru inni í skólastofu eða á frístundaheimili. Barn í kennslustund þarf annars konar stuðning en barn í leik og starfi á frístundaheimili,“ segir Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.  

Úr grunnskólastarfi.

Úr grunnskólastarfi. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hann segir að fjármunum til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum sé úthlutað á tvennan hátt; á grundvelli nemendafjölda og á grundvelli greininga. Fé til stuðnings í frístundastarfi sé aftur á móti einvörðungu úthlutað á grundvelli greininga sem einstakir nemendur hafa fengið, sem er svokölluð sértæk úthlutun.

Hann segir að mikið samstarf sé á milli skóla og frístundaheimila og að það hafi aukist eftir að starfsemin var færð undir eitt svið hjá Reykjavíkurborg. Þó sé enginn samanburður á milli skóla og frístundaheimila á þeirri þjónustu sem einstök börn gætu þurft á að halda.