Samfélag án aðgreiningar

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með því hvernig aðildarríki að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna uppfylla skyldur sínar, hefur gert alvarlegar athugasemdir við hversu langir biðlistar og biðtími er á Íslandi eftir greiningum fyrir börn með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) og aðrar slíkar raskanir. Finnst okkur viðunandi að þetta sé svona í okkar ríka landi og að ekki hafi verið úr þessu bætt þó að þetta stangist á við skyldur okkar samkvæmt Barnasáttmálanum? Þannig spyr Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar í grein sem hann ritar á grindvik.net

Páll Valur fjallar einnig um börn með sérþarfir og aðstoð við þau, aðstæður kennara, menntun þeirra og endurmenntun, séstaklea með tilliti til ólíkra námsþarfa barna. 

Grein Páls Vals:

Í lögum um grunnskóla segir að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.

Að mínu mati er þetta mjög góð stefna. Engin tvö börn eru eins. Skólinn á að laga sig að því og að þörfum þeirra. Öll börn eiga rétt á að fá að vera með öðrum börnum í námi og leik. Ekkert barn á að útiloka eða beita mismunun. Ég held líka að þessi stefna um skóla án aðgreiningar sé ekki bara mjög góð fyrir þau börn sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Ég er jafnsannfærður um að hún er ekki síður góð fyrir þau börn sem ekki þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Það er nefnilega svo þroskandi að kynnast alls konar fólki og mismunandi aðstæðum þess, læra að setja sig í spor annarra og taka tillit til þeirra. Ef börnin okkar læra það vel njóta þau sín öll miklu betur í samfélagi sem byggist á virðingu fyrir öðru fólki, tækifærum fyrir alla, tillitssemi og málamiðlunum. Og ég held að við viljum öll að börnin okkar tileinki sér þá hæfni og það hugarfar.

Betra samfélag

Ef við gerum þetta almennilega verður samfélagið okkar ekki bara manneskjulegra og mannlífið fjölbreyttara og skemmtilegra. Við förum þá líka mun síður á mis við þann mikla mannauð sem býr í öllum þeim fjölmörgu börnum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda í námi sínu, sum tímabundið en önnur lengur. Þannig fá þau tækifæri til að vera með og leggja sitt af mörkum eftir getu hvers og eins. Skóli án aðgreiningar sem er vel búið að stórbætir því ekki bara lífsgæði mjög margra barna og aðstandenda þeirra. Hann eykur einnig mikið líkur á að börnin nái árangri í náminu og finni sér störf við hæfi þegar þau verða fullorðin. Það er því til mjög mikils að vinna. Það er afar mikil sóun að láta marga verða óvirka í samfélaginu og lenda jafnvel út á jaðri þess og þurfa þess vegna á miklum og kostnaðarsömum stuðningi að halda, jafnvel ævina á enda.

Hver stöndum við okkur

En hvernig búum við að skólunum sem eiga að vera án aðgreiningar þannig að börnin okkar fái notið þeirra tækifæra sem í því felast og geti tekið virkan þátt í samfélagi án mismununar?

Við stöndum okkur alls ekki nógu vel í því, finnst mér. - Og hvers vegna finnst mér það?

Vegna þess að við leggjum allt of lítið í að greina þarfir þeirra mörgu barna sem þurfa á stuðningi að halda. Og það þó að þær greiningar séu augljóslega forsenda þess að skólarnir og kennararnir geti vitað hverjar þarfir þeirra eru. Er ekki augljóst að þannig geta þeir miklu betur sniðið kennsluna að þörfum hvers og eins barns og veitt þeim þann stuðning sem mestum árangri skilar.

Biðlistar og biðtími eftir nauðsynlegum greiningum fyrir börn sem eru með einhvers konar raskanir vegna fötlunar, ofvirkni og/eða athyglisbrests (ADHD), einhverfu eða af geðrænum ástæðum eru of allt of langir. Börn með talmein og málþroskaraskanir eru mjög mörg og það spillir lífsgæðum þeirra og möguleikum til náms og þar með tækifæra í lífinu ef þau fá ekki viðeigandi greiningar og þjálfun þegar þau eru ung. Þjónusta við þessi börn er allt of ómarkviss og mismunandi milli sveitarfélaga og þjónustusvæða og svo er oft kostnaðarsamt að sækja hana, sem leiðir augljóslega til að börnunum er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra eða félagslegra aðstæðna.

Aðstæður kennara

Endurmenntun er skorin við nögl fyrir kennara um hvernig megi koma auga á ýmis konar raskanir hjá börnum og hvernig árangursríkast er að mæta þörfum þeirra í námi og félagslega. Og þá segja talsmenn samtaka sem vinna með hagsmuni barna að leiðarljósi að ekki sé lögð mikil áhersla á þá þekkingu og þjálfun í skyldunámi fyrir alla kennaranema sem stunda nám í kennaraskólum sem ríkið rekur. Þetta sama ríki hefur sett stefnuna góðu um skóla án aðgreiningar sem gerir ráð fyrir því að börnum með sérþarfir sé kennt með öðrum börnum og í sömu skólastofum og af öllum kennurum.

Er þetta ásættanlegt? - Er nægilega vel að því staðið af hálfu menntamálayfirvalda að hrinda stefnu um skóla án aðgreiningar í framkvæmd og búa þannig að skólum og kennurum að þeir geti náð þeim mikilvægu markmiðum sem að er stefnt?

Nei, því miður svo er alls ekki. - Og þetta er að sjálfsögðu langt frá því að vera ásættanlegt.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Ísland fullgilti Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og hann hefur verið tekinn í íslensk lög. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með því hvernig aðildarríki að sáttmálanum uppfylla skyldur sínar hefur gert alvarlegar athugasemdir við hversu langir biðlistar og biðtími er á Íslandi eftir greiningum fyrir börn með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) og aðrar slíkar raskanir.
Finnst okkur viðunandi að þetta sé svona í okkar ríka landi og að ekki hafi verið úr þessu bætt þó að þetta stangist á við skyldur okkar samkvæmt Barnasáttmálanum?

Eigum við ekki að leyfa Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna að einbeita sér að því að bæta kjör og stöðu barna í mjög fátækum löndum þar sem fjárskortur er raunverulegt vandamál og hindrun.

Hjá okkur er þetta bara spurning um vilja stjórnvalda og forgangsröðun.

Vefur grindavik.net