Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra tekur við fyrsta endurskinsmerki ADHD samtakanna.
Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD. Í tilefni af mánuðnum munu ADHD samtökin standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og með ýmsum hætti, vekja athygli á málefnum fólks með ADHD, en gera má ráð fyrir að hátt í 20.000 Íslendingar séu með ADHD - greint eða ógreint, börn og fullorðnir.
Til að marka upphaf ADHD vitundarmánaðarins að þessu sinni, afhenti framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, Hrannar Björn Arnarsson, Félags- og barnamálaráðherra , Ásmundi Einari Daðasyni, fyrsta endurskinsmerki ADHD samtakanna árið 2020. Nýtt endurskinsmerki, teiknað af Hugleiki Dagssyni er selt í fjáröflunarskini fyrir samtökin í októbermánuði ár hvert og er þetta ein helsta fjáröflun samtakanna.
Dagana 3-17 október verður endurskinsmerkið selt víða um land, bæði í heimahúsum, á torgum og við fjölda útsölustaða Bónuss og í vefverslun ADHD samtakanna. Endurskinsmerkið kostar kr. 1.000,- og rennur allur ágóði af sölunni til ADHD samtakanna.
Takið vel á móti sölufólki ADHD samtakanna - Athygli - já takk!