Lyf við ADHD draga úr glæpahneigð

Eldri táningar og fullorðnir sem eru með ofvirkni- og athyglisbrest (ADHD) eru mun ólíklegri til að fremja glæpi á meðan þeir notar ofvirknilyf. Þetta kemur fram í nýrri sænskri rannsókn og AP-fréttastofan greinir frá.

Rannsóknin sýnir að þeir sem eru með ADHD eru mun líklegri til að brjóta lög, 4-7 sinnum meira en aðrir.

Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að Ritalin, Adderall og fleiri lyf sem vinna gegn ofvirkni og athyglisbresti, eru mikilvæg fram á fullorðinsár. Séu þau notuð af eldri sjúklingum gæti það dregið úr glæpum.

„Það er viðtekið að þetta sé barnasjúkdómur og að fólk vaxi upp úr því að þurfa lyf,“ segir,“ William Cooper, barnalæknir við Vanderbilt-háskóla í Nashville. „Við erum byrjuð að átta okkur á að ADHD er sjúkdómur sem sumir glíma við alla sína ævi.“

Sænska rannsóknin var unnin við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og stýrt af Paul Lichtenstein. Niðurstöður hennar voru birtar í nýjasta hefti New England Journal of Medicine.

„Það er þekkt að glæpatíðni og fíkniefnamisnotkun meðal fólks með ADHD er hærri en gengur og gerist,“ segir Lichtenstein. Hins vegar hafi ekki verið vitað hvernig bregðast ætti við því.

 Vísindamennirnir skoðuðu upplýsingar um16 þúsund karla og 10 þúsund kvenna frá 15 ára aldri sem greind höfðu verið með ADHD. Í þeim komu m.a. fram allar lyfjaávísanir til fólksins. 

Þá voru gögn dómstóla og fangelsa á árunum 2006-2009 einnig notuð til að komast að því hvort og hvenær fólkið hefði brotið af sér. Þessi gögn voru borin saman til að sjá hvort fólkið hefði verið að taka ofvirknilyf á þeim tíma sem það sat inni eða hafði orðið uppvíst að lögbroti.

Til samanburðar voru teknar upplýsingar um tíu manns sem ekki höfðu verið greind með ADHD á hvern þann sem hafði greinst með sjúkdóminn.

Niðurstöðurnar voru þessar:

- Um 37% karla með ADHD höfðu verið dæmdir fyrir að minnsta kosi einn glæp á þessu fjögurra ára tímabili. Til samanburðar höfðu aðeins 9% þeirra sem ekki höfðu greinst með sjúkdóminn framið glæpi. 15% kvenna með ADHD höfðu framið glæpi en 2% kvenna sem ekki höfðu greinst.

Notkun á ADHD-lyfjum minnkaði líkur á því að fremja glæp um 32% hjá körlum og 41% hjá konum.

Flestir glæpirnir voru innbrot og þjófnaðir. Lichtenstein segir lyfin draga úr hvers konar glæpum.

Ofangreind frétt er tekin af vef Morgunblaðsins í dag 23. 11.2012 og birtist hér: http://www.mbl.is/frettir/taekni/2012/11/22/lyf_vid_adhd_draga_ur_glaepahneigd/