Lífið með ADHD ræðir við tvo lögreglumenn um lögregluna og ADHD.
Lífið með ADHD er nýtt hlaðvarp ADHD samtakanna, sem reglulega mun birta viðtalsþætti á ruv.is og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í þriðja þætti hlaðvarpsins er fjallað um lögregluna og ADHD en undanfarin ár hafa sprottið reglulega upp umræður um þau mál. Í júlí 2019 var viðmiðum breytt varðandi nám við Mennta- og starfþróunarsetur lögreglunnar en hingað til hefur fólkið sem sem starfar innann lögreglunnar líltið tjáð sig. Í þessum þætti af Lífið með ADHD fær Karitas Harpa annarsvegar rannsóknarlögreglumanninn Hall Hallsson í viðtal til sín og hinsvegar les hún upp orð annars lögreglumanns sem treysti sér ekki til þess að koma fram undir nafni.
Í frétt Hringbrautar um þáttinn segir m.a. þetta:
„Ég er lögga í felum með mitt frábæra ADHD þar sem talsverðir fordómar eru ríkjandi innan stéttarinnar. Fordómarnir eru meira áberandi hjá yfirmönnum og þeim sem eldri eru. Á samtölum og orðaræðu sem maður heyrir frá mörgum þeirra má sjá að þeir hafa litla sem enga þekkingu á málinu og er þessum stimpli skellt fram eins og skammyrði fyrir hina og þessa sem ekki standa sig nægilega vel eða eru skjólstæðingar okkar á vondum stað."
Þetta segir ónefnd lögreglukona í aðsendu bréfi sem fjölmiðlakonan Karítas Harpa Davíðsdóttir las upp í nýjasta þætti hlaðvarpsins Lífið með ADHD. Þar var fjallað um ADHD innan lögreglunnar og hvort að fornaldarleg viðhorf séu ríkjandi innan stéttarinnar.
Í júlí í fyrra spruttu upp háværar umræður um að verið væri að útiloka einstaklinga með ADHD til að starfa hjá lögreglunni. Ástæða uppþotsins var sú að viðmiðum var breytt varðandi nám við mennta- og starfsþróunarsvið lögreglunnar þar sem tekið var fram að ADHD gæti verið útilokandi þáttur varðandi umsæknir. ADHD-samtökin mótmæltu breytingunum harðlega og töldu að breytingarnar útilokuðu fólk með ADHD frá því að fá störf frá lögreglunni.
Á bréfi lögreglukonunnar, sem ekki treysti sér til að koma fram undir nafni, er greinilegt að fordómar ríkja enn innan stéttarinnar að einhverju leyti.
„Mér finnst ömurlegt að vera sett í sama flokk og fólk sem að misnotar fíkniefni í tengslum við þá umræðu um hvort að fólk með ADHD eigi að fá að starfa sem lögreglumenn. En svo þorir maður ekki að taka umræðuslaginn þegar umræðan byrjar í vinnunni þar sem að vinnuöryggið er ekki tryggt, “ segir lögreglukonan ónefnda
Meðal annars hafi hún orðið vör við það viðhorf að lögreglumenn á AHDH-lyfjum ættu ekki að keyra eitthvað sem hún segir fráleitt.
Þá segist hún þekkja nokkra lögreglumenn með ADHD sem eru í felum af ótta við að opinberun gæti komið niður á þeim varðandi starfsframa innan lögreglunnar.
Í bréfi lögreglumannsins kemur fram að viðkomandi telji sig mun betri lögreglumann eftir að hann fékk greininguna og hóf að fá meðhöndlun vegna hans. „Ég tala nú um líf mitt fyrir og eftir ADHD-greininguna" segir lögreglukonan.
Þáttinn í heild má nálgast hér að neðan:
Lífið með ADHD, hlaðvarp ADHD samtakanna er í umsjón Karitasar Hörpu Davíðsdóttur og mun hún fá til sín góða gesti í 40-50 mínútna spjall, sem miðla af reynslu sinni og þekkingu, ekki síst af lífinu með ADHD. Gleði, sorgir, sigrar og óborganlegar lífsreynslusögur í bland við fróðleik um ADHD. Allt sem þú hélst að þú vissir um ADHD, en vissir í raun ekki...