Kærleikur í kaos – nýtt rafrænt foreldranámskeið

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra opnar foreldranámskeiðið Kærleikur í kaos ásamt Vilhjálmi Hj…
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra opnar foreldranámskeiðið Kærleikur í kaos ásamt Vilhjálmi Hjálmarssyni, formanni ADHD samtakanna og Elínu H Hinriksdóttur, sérfræðingi samtakanna.

ADHD samtökin ýta nú úr vör foreldrafærninámskeiðinu Kærleikur í kaos, sem ætlað er foreldrum barna með ADHD og skyldar raskanir. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra opnaði námskeiðið með formlegum hætti og er það nú öllum aðgengilegt á vef ADHD samtakanna.

Skráning og upplýsingar hér

Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi annarra barna. Foreldrar og forráðamenn verða að vera í stakk búnir að takast á við krefjandi aðstæður og aðlagast eiginleikum barnsins og iðulega upplifa foreldrar óvissu í uppeldi barna með ADHD. Réttar uppeldisaðferðir og skilningur eru lykillinn að vellíðan barns með ADHD og um leið foreldranna. Hér skiptir höfuðmáli að foreldrar hafi aðgengi að fræðslu og þjálfun ásamt einföldum verkfærum sem leiði til betra heimilislífs.

Kærleikur í kaos, er ætlað er foreldrum barna með ADHD og skyldar raskanir á aldrinum 3 - 10 ára. Námskeiðið byggir á dönsku foreldrafærninámskeiði - KIK Nu! - sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu og er vísindalega árangursmælt. Foreldrar barna með ADHD sem nýta sér námskeiðið öðlast betri uppeldisfærni, árekstrum fækkar og samband foreldra og barns batnar.

Kærleikur í kaos veitir foreldrum betri skilning á ADHD röskuninni og hvaða áhrif hún hefur á daglegt líf barnsins ásamt því að vera stuðningur við foreldrahlutverkið. Byggt er á fræðslu, verkefnum og góðum ráðum til að takast á við og vinna með ADHD eiginleika barnsins.

Kærleikur í kaos er gagnvirkt netnámskeið sem er alltaf opið og aðgengilegt hvar sem er á landinu. Námskeiðið er endurgjaldslaust fyrir félagsfólk ADHD samtakanna en aðrir greiða hóflegt þátttökugjald.

Skráning og aðgengi að námskeiðinu er á heimasíðu ADHD samtakanna Skráning og upplýsingar hér

kaos fritt