Börn með ADHD upplifa oft erfiðleika með svefn.
Hvar er draumurinn? ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund, um ADHD og svefnerfiðleika, miðvikudaginn 3. apríl nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður foreldrum, forráðamönnum og nánum ættingjum barna með ADHD og öðru áhugafólki um ADHD og svefn.
Börn með ADHD upplifa mjög oft erfiðleika með svefn. Ástæðurnar geta verið margskonar og úrræðin sömuleiðis og er reynsla fólks afar mismunandi og einstaklingsbundin. Lyf hafa einnig mismunandi áhrif á einstaklinga hvað þetta varðar. Margar leiðir er þó hægt að fara og verða þær helstu kynntar og ræddar á fundinum.
Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bækling samtakanna og annað fræðsluefni.
Allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir. Það verður heitt á könnunni og að sjálfsögðu kostar ekkert að taka þátt.
Spjallfundir ADHD samtakanna eru fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði og má sjá dagskrá vorannar 2019 hér: Spjallfundir ADHD samtakanna vorið 2019.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.