Aðalfundur ADHD samtakanna kallar eftir stóraukinni geðheilbrigðisþjónustu.
Aðalfundur ADHD samtakanna, haldinn 19.05.2020 fagnar aukinni áherslu stjórnvalda á geðheilbrigðismál og þeirri vitundarvakningu sem orðin er um mikilvægi geðheilbrigðis og andlegrar heilsu. Stóraukin þjónusta á þessu sviði er eitt brýnasta lýðheilsuverkefni samfélagsins næstu misserin.
Alvarlegar afleiðingar Covid-19 faraldursins, sem enn sér ekki fyrir endann á, kalla einnig á viðamiklar aðgerðir til að koma til móts við þá hópa samfélagsins, sem hafa orðið illa úti, ekki bara efnahagslega, heldur einnig vegna röskunar á námi, einangrunar eða andlegra áfalla ýmiskonar. Einstaklingar með ADHD og aðrar skyldar raskanir eru í einstaklega viðkvæmri stöðu að þessu leyti.
Stóraukið fjármagn þarf að setja í greiningar og meðferðarúrræði vegna ADHD, bæði hjá fullorðnum og börnum og eyða núverandi biðlistum eftir greiningum. Tveggja til þriggja ára bið eftir greiningu og meðferð er óviðunandi.
Einnig er mikilvægt að skólar, bæði grunn- og framhaldsskólar, fái sérstakan stuðning til að sinna þeim nemendum sem hafa dregist aftur úr vegna röskunar á skólastarfi af völdum Covid-19.
Þá þarf að tryggja að sálfræðiþjónusta sé veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta og að slík þjónusta verði felld undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands eins fljótt og auðið er.
Bætt lífsskilyrði fólks með ADHD bæta lífsgæði allra – ekki eingöngu þeirra með ADHD, heldur fjölskyldna þeirra, nærsamfélags og samfélagsins alls. Greining og aðgengileg úrræði vegna ADHD er einhver besta samfélagslega fjárfesting sem heilbrigðis- og skólakerfið geta ráðist í á komandi árum.
Ályktun samþykkt á aðalfundi ADHD samtakanna, 19. maí 2020.