Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir tekur á móti fyrsta endurskinsmerki ADHD samtakanna árið 2021 í tilefni af alþjóðlegum vitundarmánuði fólks með ADHD.
Október er alþjóðlegur vitundarmánuður fólks með ADHD. Í tilefni af mánuðnum munu ADHD samtökin standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og með ýmsum hætti, vekja athygli á málefnum fólks með ADHD, en gera má ráð fyrir að hátt í 20.000 Íslendingar séu með ADHD - greint eða ógreint, börn og fullorðnir.
Í ár verður athyglinni sérstaklega beint að tómstundum og íþróttum og þátttöku barna með ADHD og lýkur mánuðnum með opnu málþingi samtakanna um þau málefni - Orkuboltar og íþróttir.
Til að marka upphaf ADHD vitundarmánaðarins að þessu sinni, afhenti framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, Hrannar Björn Arnarsson, Forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, fyrsta endurskinsmerki ADHD samtakanna árið 2021. Nýtt endurskinsmerki, teiknað af Hugleiki Dagssyni er selt í fjáröflunarskini fyrir samtökin í októbermánuði ár hvert og er þetta ein helsta fjáröflun samtakanna.
Endurskinsmerkið verður selt víða um land, bæði í heimahúsum, á torgum og við fjölda útsölustaða Bónuss og í vefverslun ADHD samtakanna. Endurskinsmerkið kostar kr. 1.500,- og rennur allur ágóði af sölunni til ADHD samtakanna.