Sigríður I. Ingadóttir og Eygló Harðardóttir
Vinna við endurskoðun umönnunargreiðslna til foreldra fatlaðra og langveikra barna hefur ekki enn farið fram vegna anna í öðrum verkefnum innan
velferðarráðuneytisins, en skipaður hefur verið starfshópur sem mun hefja störf á allra næstu dögum. Þetta kom meðal annars fram
í svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur,
þingmanns Samfylkingarinnar og formanns velferðarnefndar þingsins.
Sigríður Ingibjörg spurði ráðherra á Alþingi hvort unnið væri að endurskoðun umönnunargreiðslna skv.
4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Ef svo væri, hvert væri
markmið endurskoðunarinnar og hvenær væri áætlað að tillögur um breytingar lægju fyrir.
Ráðherra reiknar með að starfshópurinn þurfi eitt ár til að fara vel yfir málin og að skýrslu verði skilað í
árslok 2015. Endurskoðun umönnunargreiðslna hefur staðið svo árum skiptir án niðurstöðu. Á þeim tíma hefur verið
dregið verulega úr greiðslum til foreldra barna með ADHD. Brýnt er að mati ADHD samtakanna að unnið verði hratt og örugglega í málinu,
enda mikið hagsmunamál fyrir aðstandendur barna með ADHD.
Starfshópnum sem nýlega var skipaður er ekki aðeins ætlað að endurskoða umönnunargreiðslur til framfæranda fatlaðra og/eða langveikra
barna samkvæmt 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, heldur mun hann einnig
fara yfir lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra
barna, eða svokallaðar foreldragreiðslur. Eitt af meginverkefnum hans verður því að skoða kosti og galla þess að sameina umönnunargreiðslur og
foreldragreiðslur í eina heildstæða löggjöf um fjárhagslegan stuðning hins opinbera við fjölskyldur langveikra og/eða alvarlega fatlaðra
barna.
"Við vonumst til að hægt verði að vinna þetta hratt. Við erum hins vegar í vinnu sem snýr að heildarendurskoðun á
almannatryggingakerfinu. Það eru þau lagafrumvörp sem við höfum verið að leggja áherslu á að koma með sem fyrst inn í
þingið. Við erum líka með ákveðnar tillögur sem snúa að bifreiðamálum og greiðslum frá Tryggingastofnun og
Sjúkratryggingum. Við erum með tillögur tilbúnar þar sem við erum að vinna úr. Að sjálfsögðu verður horft til þeirrar
vinnu sem er fyrir í þessari vinnu," sagði Eygló Harðadóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra í svari sínu
á Alþingi.
Umræður um fyrirspurnina á Alþingi mánudaginn 26. janúar
2015
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir:
Hæstv irtur forseti. Á síðasta kjörtímabili skilaði starfshópur um greiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna
niðurstöðum til velferðarráðherra. Í hópnum sátu fulltrúar Þroskahjálpar, Umhyggju, Öryrkjabandalags Íslands og
Tryggingastofnunar ríkisins. Þau lögðu til að skipuð yrði nefnd sem gerði tillögu að frumvarpi eða heildstæðum lögum um
fjárhagslegan stuðning ríkisins við fjölskyldur fatlaðra og langveikra barna og að greiðslur á grundvelli nýrra laga kæmu í stað
umönnunargreiðslna sem greiddar eru til foreldra samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og greiðslu til foreldra langveikra og fatlaðra barna.
Munurinn á þessum tveimur greiðslutegundum er nokkur og jafnframt geta foreldrar átt rétt á báðum tegundum samtímis þó
það sé sjaldgæft. Foreldragreiðslum er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við tekjuleysi foreldris vegna umönnunar barns og eru
greiðslurnar tekjutengdar og skattskyldar. Þessar greiðslur eru fátíðar eða tiltölulega fátíðar og ná til 92 móttakenda
árið 2013 og voru 92 millj. kr. Umönnunargreiðslunum er hins vegar ætlað að koma til móts við aukinn kostnað vegna sérstöðu barnsins
svo og aukna umönnun án þess að sú umönnun leiði endilega til þess að fólk detti alfarið út af vinnumarkaði eða leggi
niður nám. Þessar greiðslur eru greiddar í nokkrum flokkum og í mismunandi hlutfalli en eru ekki tekjutengdar og skattskyldar. Móttakendur þeirra
greiðslna voru 2.149 árið 2013 og fengu samtals um 1.500 millj. kr.
Hagsmunasamtök hafa áhyggjur af hlutfallslegri fækkun þeirra sem fá greiðslurnar og lítilli hækkun þeirra miðað við aðrar
greiðslur TR á síðastliðnum árum.
Þegar foreldragreiðslum var komið á árið 2006 átti í kjölfarið að endurskoða samspil þeirra við
umönnunargreiðslur. Starfshópurinn sem ég vitnaði til áðan er sammála því og telur æskilegt að samræma
umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur í eitt heildstætt kerfi þar sem í sérlögum verði kveðið á um fjárhagslegt
stuðningskerfi ríkisins við foreldra langveikra og fatlaðra barna til umönnunar útgjalda og tekjutaps foreldra á vinnumarkaði og bætur vegna
umönnunarinnar til þeirra sem geta unnið.
Þessi starfshópur skilaði lokaskýrslu með markmiðum fyrir þennan nýja flokk greiðslna þar sem þær væru samræmdar,
þessar tvær tegundir. Það yrði dregið úr vægi greininga og kerfið byggt á upplýsingum um raunverulega umönnun og kostnað og
það skilgreint betur hvað er greitt og skilið á milli greiðslna vegna umönnunar, kostnaðar og tekjutaps. Hópurinn lagði síðan fram
mótaða hugmynd um hvernig greiðslum yrði háttað.
Ég vil því spyrja hæstvirtan ráðherra:
Er unnið að endurskoðun umönnunargreiðslna skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð?“ — Og ætti
eiginlega að bæta við foreldragreiðslna. — „Ef svo er, hvert er markmið endurskoðunarinnar og hvenær er áætlað að tillögur um
breytingar liggi fyrir?
Eygló Harðardóttir:
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður fór í gegnum er
spurt að hvort unnið sé að endurskoðun umönnunargreiðslna, samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð, og ef svo er hvert sé markmið
endurskoðunarinnar og hvenær áætlað sé að tillögur um breytingar liggi fyrir.
Það skal viðurkennast hér að vinna við endurskoðun umönnunargreiðslna hefur ekki enn farið fram vegna anna í öðrum verkefnum innan
ráðuneytisins, en skipaður hefur verið starfshópur sem mun hefja störf á allra næstu dögum. Í honum eiga sæti fulltrúar frá
Landssamtökunum Þroskahjálp og frá Umhyggju, auk þess sem Öryrkjabandalagið hefur óskað eftir að fá fulltrúa í
hópinn líka, og auk fulltrúa velferðarráðuneytisins. Formaður starfshópsins er Rakel Dögg Óskarsdóttir. Við höfum tengt
þessa vinnu við þá heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
Starfshópnum er ekki aðeins ætlað að endurskoða umönnunargreiðslur til framfæranda fatlaðra og/eða langveikra barna samkvæmt
4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, heldur mun hann einnig fara yfir lög
nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, eða svokallaðar foreldragreiðslur. Eitt af meginverkefnum hans verður því
að skoða kosti og galla þess að sameina umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur í eina heildstæða löggjöf um fjárhagslegan
stuðning hins opinbera við fjölskyldur langveikra og/eða alvarlega fatlaðra barna.
Hv. þingmaður fór í gegnum þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram frá starfshópnum, ég tók ekki eftir hvort hún
nefndi það að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr.
158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, kemur fram að eðlilegt hafi
þótt að ákvæði um umönnunargreiðslur í lögum um félagslega aðstoð yrðu tekin til endurskoðunar með það
að markmiði að skýra betur reglur um aðstoð til foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við veikindi eða
fötlun barnanna. Var nefnt að endurskoðun yrði hafin innan tveggja ára frá þeim tíma er lögin voru samþykkt þar sem meðal annars
yrði tekið mið af reynslunni.
Við þekkjum það hins vegar ágætlega hvað mikið hefur gerst í íslensku samfélagi og gengið hér á frá
því 2007. Því hefur ekki unnist tími til að fara vel yfir þessi mál, enda þótt nefndir hafi verið skipaðar í þeim
tilgangi. Ég tel hins vegar vera kominn tíma á þetta mikilvæga verkefni þó fyrr hefði verið, en hið jákvæða er að nokkur
reynsla er komin á framkvæmd þessara greiðslna.
Ljóst er að starfshópurinn þarf að skoða þær breytingar sem hafa orðið á aðstæðum fatlaðra og langveikra barna og
fjölskyldna þeirra frá því að umönnunargreiðslunum var síðast breytt. Síðan má einnig meta hvernig foreldragreiðslurnar
hafa verið að nýtast foreldrum.
Sem dæmi heyrir stofnanavist fatlaðra barna nánast sögunni til. Sú þróun hefur það í för með sér að börn með
miklar og flóknar umönnunarþarfir dvelja því í umsjón foreldra sinna. Þá fylgir oft fötluðu eða langveiku barni ýmiss
kostnaður umfram önnur börn. Við mat á þörf á hugsanlegum lagabreytingum er því nauðsynlegt að taka mið af þessum breytingum
og þeirri þróun sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki.
Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þá fjármuni sem fara í þetta. Það sem maður hefur fengið að heyra
ítrekað frá fólki eru þær áhyggjur að sjá ekki aukningu í fjölda foreldra sem leita eftir umönnunargreiðslum. Með okkar
frábæru heilbrigðisþjónustu, og raunar félagsþjónustu, er hægt að bæta lífsgæðin umtalsvert og styðja betur
við börnin og þar með fjölskyldurnar, en mikið álag er á fjölskyldur í þessum aðstæðum. Eitt af því sem
maður hefur heyrt vísbendingar um, t.d. frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, er að börn eru með mun flóknari greiningar en
áður, þannig að maður hefði talið að það ætti að einhverju leyti að endurspeglast í tölunum en það höfum
við ekki séð. Ég held að mikilvægt sé að nefndin fari vel yfir það.
Meginmarkmið vinnunnar er því að meta hvernig þeir fjármunir sem eru til ráðstöfunar nýtist foreldrum fatlaðra og langveikra barna sem
best og þá hvaða breytingar eru nauðsynlegar á löggjöfinni í því efni. Ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun
á því hvernig þetta eigi að vera en mun að sjálfsögðu bíða eftir tillögum starfshópsins. Ég geri ráð fyrir
að starfshópurinn þurfi eitt ár til að fara vel yfir málin. Ég á von á að fá afhenta skýrslu í árslok 2015.
Ég hefði gjarnan viljað sjá að skýrslan hefði legið fyrir fyrr en það mun hins vegar taka tíma, það hefur maður verið
að læra á þeim tíma sem maður hefur verið í ráðuneytinu að tíma tekur að vinna vinnuna vel. Þetta er svo sannarlega
líka málaflokkur sem skiptir verulega miklu máli að (Forseti hringir.) við vinnum vel og að við vinnum hratt.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir:
Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir svörin. Ég ætla að lýsa yfir sérstakri
ánægju með að hún hafi skipað starfshóp til þess að fara yfir þessi mál og hvet ég hana til þess að taka
Öryrkjabandalagið inn í þann hóp enda voru fulltrúar þess í starfshópnum sem starfaði áður.
Ég vil hins vegar lýsa yfir vonbrigðum með að ekki sé bara haldið áfram með vinnuna eins og hún lá fyrir. Það voru gefnar
út lokaniðurstöður þar sem voru beinar tillögur. Ég tel að það sé hægt að vinna á grundvelli þeirra tillagna, vinnan
nú þurfi ekki að taka ár þar sem þegar er búið að vinna mikið starf. Auðvitað vill ráðherra mynda sér skoðun
á niðurstöðum, en það liggur nokkurn veginn fyrir af hálfu þeirra sem hafa hagsmuni af málinu hvernig þeir telja að skipan þess
væri best fyrir komið. Síðan þarf auðvitað að fara yfir hvað er mögulegt að gera og slíkt, en mér finnst heilt ár til
þess að fá niðurstöður — og þá á eftir að smíða frumvarp — of langur tími.
Að því sögðu er gott að þessi vinna er þó í gangi. Ég vil hvetja ráðherra til þess að fela kannski hópnum
að semja frumvarp. Það gæti flýtt fyrir málinu.
Ég vil líka ítreka eitt varðandi umönnunargreiðslurnar sem fara þá væntanlega yfir í annað form. Þó að fólk
geti nánast að fullu eða að miklu leyti verið á vinnumarkaði verði ekki eingöngu litið til kostnaðar heldur líka til þeirra
greiðslna sem fatlaðir og fötluð börn og fjölskyldur þeirra þurfa til þess að fjölskyldan njóti verndar og tækifæra til
réttinda að fullu og til jafns við aðra í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs
fólks.
Eygló Harðardóttir:
Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og þakka þingmanninum líka fyrir að halda þessu vakandi hér í
þinginu. Ég treysti á að hún muni áfram halda okkur við efnið.
Það skal bara viðurkennast hér að íslensk stjórnsýsla er lítil. Þó að okkur finnist ráðuneytin vera stór,
það séu 100 manns sem vinni þar, þá eru kannski tveir til þrír starfsmenn að vinna akkúrat í þessum málaflokki.
Þegar kemur að því að aðstoða nefnd við að semja lagafrumvörp, þá værum við að tala um að þeir örfáu
starfsmenn kæmu að því.
Við vonumst til að hægt verði að vinna þetta hratt. Við erum hins vegar í vinnu sem snýr að heildarendurskoðun á
almannatryggingakerfinu. Það eru þau lagafrumvörp sem við höfum verið að leggja áherslu á að koma með sem fyrst inn í
þingið. Við erum líka með ákveðnar tillögur sem snúa að bifreiðamálum og greiðslum frá Tryggingastofnun og
Sjúkratryggingum. Við erum með tillögur tilbúnar þar sem við erum að vinna úr. Að sjálfsögðu verður horft til þeirrar
vinnu sem er fyrir í þessari vinnu.
Þarna er um einstaklinga að ræða, sem búið er að tilnefna í þennan starfshóp, sem þekkja þetta mjög vel og eiga að geta
unnið þetta hratt. En að sama skapi mun það síðan taka tíma að vinna frumvörpin. Það er annað sem maður hefur líka
áttað sig betur á, þ.e. að töluvert flóknara er að vinna lagafrumvörp í ráðuneyti en þegar maður var
stjórnarandstöðuþingmaður hér á þingi.