Frá afhendingu bæklingsins í sendiráði Póllands
ADHD samtökin hafa nú látið þýða á pólsku, bækling með grunnupplýsingum um ADHD. Bæklingurinn nefnist "Co To Jest" -
Hvað er ADHD? Lech Mastalerz, sendifulltrúi Póllands á Íslandi tók við fyrsta eintakinu í sendiráði Póllands í morgun.
Bæklingurinn er framleiddur með aðstoð velunnara ADHD samtakanna, m.a. Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
Pólverjar eru sem kunnugt er fjölmennasti innflytjendahópurinn á Íslandi. Á tíunda þúsund Pólverjar eru hér á landi
eða um 3% landsmanna. Þar af eru að minnsta kosti 1.500 börn.
Upplýsingabæklingnum verður dreift á heilsugæslustöðvar, þjónustumiðstöðvar og
félagsþjónustur sveitarfélaga um allt land og víðar. Þá verður bæklingurinn fáanlegur á rafrænu formi á
vefsíðu ADHD samtakanna og vef pólska sendiráðsins.
Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu. Þeir
fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi, starfi og almennt bættum
lífsgæðum.
Ef yfirfærðar eru erlendar faraldsfræðilegar rannsóknir á íslenskt þýði má gera ráð fyrir því að um
10.000 fullorðnir og 6.000 börn á Íslandi séu með ADHD.
Áður útgefnir bæklingar ADHD samtakanna eru m.a.;
• ADHD utan skólastofunnar Upplýsingabæklingur fyrir allt
starfsfólk grunnskóla
• Hvað er ADHD? Útskýrir í
stuttu máli einkenni ADHD og möguleg úrræði
• Börn og ADHD Útskýrir helstu einkenni
hjá börnum, greiningu og meðferðarúrræði
• Stúlkur og ADHD Útskýrir hvernig einkenni ADHD
birtast hjá stúlkum, en þau eru gjarnan ólík birtingamyndinni hjá drengjum. Þá er einnig fjallað um greiningu og
meðferðarúrræði
• Fullorðnir og ADHD Útskýrir helstu
einkenni á fullorðinsárum, segir frá meðferðarúrræðum
Alla bæklingana má fá á skrifstofu ADHD samtakanna, auk þess sem finna má þá á heimasíðunni, www.adhd.is
Skilningur skiptir máli - Stuðningur skapar sigurvegara!