Biðtími hjá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir greiningu á ADHD og skyldum röskunum
hjá börnum er allt að 12 mánuðir. Nú bíða 310 börn greiningar og af þeim eru 65 börn á forgangslista. Biðtími
forgangsbarna er 5–8 mánuðir. Þetta kemur meðal annars fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra
við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar.
Páll Valur spurði ráðherra hversu langir biðlistar og biðtími væru eftir greiningu á ofvirkni og
athyglisbresti (ADHD) og skyldum röskunum hjá börnum. Ennfremur spurði þingmaðurinn hvað íslensk stjórnvöld hefðu gert til að auka
afkastagetu meðferðar- og greiningarstöðva, sbr. ábendingu í úttekt barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2011,
varðandi greiningar á börnum með ADHD og skyldar raskanir.
Í svari ráðherra segir að frumgreining á ofvirkni og athyglisbresti meðal barna fari jafnan fram hjá sálfræðingum sem starfa hjá
sálfræðiþjónustu skóla. Þegar úrræði sem ráðlögð hafa verið hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir
þann vanda sem er til staðar sé börnum vísað til frekari greiningar í Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu
höfuðborgarsvæðisins (ÞHS) sem er helsti meðferðar- og greiningaraðili vegna ADHD og skyldra raskana á Íslandi þegar horft er til
fjölda barna sem árlega njóta þar greiningar- og meðferðarþjónustu.
Nú eru 310 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni eftir nánari greiningu á ADHD og skyldum röskunum sem eru t.d.
kvíði, tilfinningavandi, hegðunarvandi og einhverfurófseinkenni.
Af þeim 310 börnum sem bíða greiningar eru 65 á forgangslista og 245 á almennum biðlista. Biðtími forgangsbarna er 5–8 mánuðir
og bið barna á almennum biðlista er 11–12 mánuðir.
Í svarinu kemur fram að tilvísanir voru 456 á árinu 2014, þar af voru 368 vegna barna á höfuðborgarsvæðinu, 12 frá
Reykjanesi, 21 frá Vesturlandi, 16 frá Vestfjörðum, 3 frá Norðurlandi vestra, 21 frá Norðurlandi eystra, 3 frá Austurlandi og 12 frá
Suðurlandi.
Á barna- og unglingageðdeild (BUGL) er veitt sérfræðiþjónusta vegna barna og unglinga með flókinn og samsettan geðrænan vanda
og/eða alvarleg geðræn einkenni. Mörg börn sem eru í þjónustu á BUGL eru með ADHD-greiningu en þá er yfirleitt um að
ræða flóknari mynd þar sem fleiri greiningar koma við sögu og vandinn telst orðinn margþættur. Tilvísanir vegna barna með samsettan vanda
(þ.m.t. ADHD og fylgiraskanir) og íþyngjandi geðræn einkenni eru metnar með tilliti til biðtíma og börn með alvarlegustu einkennin komast fyrr
í þjónustu. Meðalbiðtími er um eitt ár. Ef grunur er um alvarlegan vanda, svo sem sjálfsvígshættu eða geðrofseinkenni, fær
barnið þjónustu samdægurs.
Á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er börnum vísað ef þau glíma einnig við þroskaraskanir, einhverfurófsraskanir
eða hreyfihamlanir.
Viðbótarstaða sálfræðings á ÞHS verður framlengd
Í svari velferðarráðherra við fyrirspurn á 140. löggjafarþingi 2011– 2012 (521. mál) segir að mikil
þróun hafi orðið í skimun, greiningu og meðferð vegna ADHD og skyldra raskana og þekking aukist stöðugt. Klínískar leiðbeiningar
landlæknis vegna ADHD, Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni (ADHD), voru gefnar út í lok árs 2007 en á árinu 2012 gaf
embætti landlæknis út endurskoðaðar leiðbeiningar í skýrslu undir sama heiti. Skýrslan er sambland klínískra leiðbeininga og
verklagsreglna og ætluð fagfólki sem vinnur við athugun, greiningu og meðferð á ADHD en jafnframt er bent á að aðrir geti haft gagn af
leiðbeiningunum, svo sem einstaklingar með ADHD, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skóla, félagsþjónustu og
heilbrigðisþjónustu.
Einni stöðu sálfræðings var bætt við tímabundið á ÞHS á árinu 2014 og gert er ráð fyrir að sú
staða verði framlengd.
Í fjárlögum 2013 var samþykkt 50 milljóna króna viðbótarframlag til að standa undir aðgerðaáætlun í
þágu barna með ADHD-röskun. Einnig er gert ráð fyrir að 25 milljóna króna framlag á fjárlögum geti nýst í
þjónustu við börn með ADHD og skyldar raskanir.
Smaningaviðræðum um ADHD teymið ekki lokið
Þá segir í svari ráðherra að samningaviðræður milli Landspítala og Sjúkratrygginga
Íslands um þjónustu ADHD-teymis á Landspítala séu vel á veg komnar. Í ADHD-teyminu eru hæfustu sérfræðingar
spítalans á sviði meðferða við ADHD. Teymið annast greiningu, stuðning og meðferð vegna ADHD. Á grundvelli samningsins verður boðið
upp á lyfjameðferð og hugræna atferlismeðferð.
Í drögum að geðheilbrigðisstefnu er gert ráð fyrir aðgerðum sem miða að því að styrkja börn sem glíma við
geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra. Meðal annars er lögð áhersla á að fjölga þurfi sálfræðingum í
heilsugæslu og auka stuðning við foreldra í uppeldishlutverki þeirra. Sams konar áherslur er að finna í drögum að fjölskyldustefnu.
Svar heilbrigðisráðherra