Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í viðtali við Fréttatímann í dag að
fagfólk á Íslandi sé vel meðvitað um tilvist Fetal Alcohol Syndrome disorder. Gyða andmælir þar fullyrðingum Jónu Margrétar
Ólafsdóttur sem fullyrti á dögunum hið gagnstæða. Á heimsvísu er talið að um 1% barna fæðist með FASD en Gyða telur
þetta enn fátíðara á Íslandi. Hún segir ekki ástæðu til að telja að hluti barna með ADHD glími við náms- og
einbeitingarerfiðleika vegna vímuefnaneyslu móður á meðgöngu, og bendir á að erfðaþættir séu almennt taldir sterkastir
þegar kemur að ADHD.
"Fagfólk í heilbrigðisgeiranum á Íslandi er almennt vel meðvitað um tilvist Fetal Alcohol Syndrome Disorder. Á heimsvísu er
talið að um 1% barna séu með FASD en ég tel að þetta sé enn fátíðara hér á landi,“ segir Gyða
Haraldsdóttir, sérfræðingur á sviði fatlana barna og forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu
höfuðborgarsvæðisins.
„Í mæðravernd á Íslandi er lögð mikil áhersla á
að konur neyti ekki áfengis eða annarra vímuefna á meðgöngu og þær taka því almennt mjög alvarlega þó auðvitað
séu dæmi um konur sem eiga við neysluvanda að etja. Á þeim þrjátíu árum sem ég hef starfað í þessum geira man
ég aðeins eftir þremur börnum með FASD,“ segir Gyða.
Í Fréttatímanum í síðustu viku var rætt við
Jónu Margréti Ólafsdóttur félagsráðgjafa sem hélt erindi á félagsráðgjafaþingi um áhættuhegðun
barna og sagði að FASD væri talin ein helsta orsök námserfiðleika hjá börnum í Evrópu og Bandaríkjunum. FASD er regnhlífarheiti
yfir þær afleiðingar sem það getur haft á fóstur ef móðir neytir áfengis- eða annarra vímuefna á meðgöngu, en
meðal þessara afleiðinga eru námserfiðleikar og einbeitingarskortur. Þá sagði Jóna að vegna skorts á þekkingu sé oft ekki
skoðað hvort mæður barna með ADHD hafi neytt áfengis-eða annarra vímuefna á meðgöngu. Þessu mótmælir Gyða.
„Það er fastur liður í greiningarferli barna með þroska- eða hegðunarfrávik að taka greinargóða þroska-, félags- og
heilsufarssögu. Liður í slíkri sögutöku er að fá upplýsingar um meðgönguna, meðal annars hvort um veikindi, neyslu eða aðra
erfiðleika var að ræða hjá móður. Að auki er núverandi aðbúnaður og fjölskylduhagir barnsins skoðaðir,“ segir
hún.
Gyða segir að þó ekki sé að fullu ljóst af hverju ADHD stafar þá sé vitað að erfðir skipta þar miklu. „Talið
er að erfðaþátturinn sé sterkastur og sé orsökin í um 70% tilvika. Ef foreldri er með ADHD eru auknar líkur á að barn
fæðist með ADHD, alveg óháð öðrum þáttum. Þótt það sé ekki útilokað að neysla áfengis-
eða annarra vímuefna á meðgöngu geti verið ein af orsökum ADHD hefur hvergi verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að svo
sé. Þaðan af síður hefur verið sýnt fram á að neysla sé helsta ástæða ADHD. „Það eina sem hefur verið
sýnt fram á er að mikil og langvarandi neysla áfengis eða annara vímuefna geti leitt til FASD og vegna þeirra útlitseinkenna sem fylgja hjá
börnum með FASD þá fer það ekki á milli mála,“ segir hún. Gyða telur það koma mjög illa við foreldra barna sem
þurfa sérkennslu vegna námserfiðleika að bendla mæður þessarra barn að ósekju við vímuefnaneyslu á meðgöngu.
„Þessir foreldrar hafa iðulega nægan vanda að fást við þó ekki sé verið að benda ásakandi fingri á mæðurnar og
kenna þeim um að hafa valdið erfiðleikum barnanna,“ segir hún.
Vefur Fréttatímans