Opinn spjallfundur á Akureyri um ADHD og náin sambönd.
ADHD og náin sambönd. ADHD Norðurland stendur fyrir opnum spjallfundi á Akureyri, um ADHD og náin sambönd, fimmtudaginn 30. janúar næstkomandi. Fundurinn fer fram í húsnæði Grófarinnar, Hafnarstræti 95 og hefst kl. 20:00.
ADHD gefur nánum samböndum og foreldrahlutverkinu sérstakann blæ - miklar tilfinningar, áfergju og gleði en einnig áskoranir sem mikilvægt er að þekkja og kunna að bregðast við. Umsjón með fundinum hefur Elín H. Hinriksdóttir, formaður ADHD samtakanna, en hann er sérstaklega ætlaður fólki með ADHD, sambúðarfólki einstaklinga með ADHD og öllum þeim sem lifa og starfa með fólki með ADHD.
Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bæklinga samtakanna, bækur um ADHD og annað fræðsluefni.
Spjallfundir ADHD Norðurland eru haldnir í Grófinni, Hafnarstræti 95, 4. hæð, fyrir ofan Apótekarann í göngugötunni. Fundirnir eru opnir öllum, félögum í ADHD samtökunum, einstaklingum með ADHD, aðstandendum og öðrum áhugasömum um ADHD og skildar raskanir. Hægt er að skrá sig á Facebook viðburð fundanna, þar sem fram koma fyrirhugaðir fundir á Akureyri og fundarefni, en áætlað er einn spjallfundur verði haldinn í hverjum mánuði - skráning hér.
Hægt er að ganga í ADHD samtökin á meðfylgjandi slóð - ganga í ADHD samtökin.
Enginn aðgangseyrir er að fundunum og er ávallt heitt á könnunni.
Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!