Aðalfundur ADHD samtakanna 2024

Aðalfundur ADHD samtakanna fta fór fram 16. apríl 2024.
Aðalfundur ADHD samtakanna fta fór fram 16. apríl 2024.

Aðalfundur ADHD samtakanna fór fram þriðjudaginn 16. apríl 2024 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbraut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2023 afgreiddir og ályktað um brýnustu verkefnin fram undan í geðheilbrigðismálum.

Formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2023 og framkvæmdastjórinn, Hrannar Björn Arnarsson gerði grein fyrir ársreiknings félagsins. Ársskýrslu og ársreikninga vegna ársins 2023 má nálgast á hér - ársskýrslur og reikningar ADHD samtakanna.

Áframhaldandi vöxtur og verkefni tengd 35 ára afmæli ADHD samtakanna einkenndi starfsemina árið 2023. Félagsmönnum fjölgaði úr 4086 í 4470 eða um 9%. Útibúum fjölgaði, námskeiðahald og fræðslustarf samtakanna jókst og mikil áhersla var lögð á lyfjamál og baráttu fyrir bættri og aukinni þjónustu hins opinbera við greiningar og meðferð vegna ADHD. Fylgjendur samtakanna á Facebook voru í árslok 17.644 (fjölgaði um 8% á árinu) og 2450 á Instagram (fjölgaði um 15% á árinu).  

Samþykkt var að árgjald ADHD samtakanna fyrir næsta starfsár yrði hækkað um 300 kr, í kr. 3950,-  og verða kröfur vegna árgjaldsins stofnaðar í heimabanka félagsfólks. Árgjaldið mun áfram veita umtalsverðan afslátt af námskeiðum samtakanna, af vörum í vefverslun ofl.

Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta, sæti ritara, gjaldkera, tveggja meðstjórnenda í aðalstjórn og eitt sæti varamanns, til ársins 2026, en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara. 

Stjórnin er nú þannig skipuð:
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður (kosin til aðalfundar 2025)
Gyða Haraldsdóttir, varaformaður (kosinn til aðalfundar 2025)
Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (kosin til aðalfundar 2026)
Tryggvi Axelsson, ritari (kosin til aðalfundar 2026)
Sigrún Jónsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2026)
Bóas Valdórsson, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2025)
Ása Ingibergsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2026)

Varamenn:
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, (kosin til aðalfundar 2026)
Bergþór Heimir Þórðarson, (kosin til aðalfundar 2025)

Nefang stjórnar er: stjorn@adhd.is

Í lok fundarins var samþykkt ályktun undir yfirskriftinni Vantraust og kerfishrun í þjónustu við fólk með ADHD.

Vantraust og kerfishrun í þjónustu við fólk með ADHD

Aðalfundur ADHD samtakanna fta, haldinn 16. apríl 2024 skorar á Heilbrigðisráðherra að grípa nú þegar til aðgerða vegna þess kerfishruns sem blasir við í þjónustu hins opinbera við fólk með ADHD. Vegna aðgerðarleysis stjórnvalda á liðnum árum hafa biðlistar eftir greiningu og meðferð meira en tvöfaldast og nú bíða um fjögur þúsund einstaklingar eftir að komast í greiningarferli. Biðtími fullorðinna eftir ADHD greiningu og meðferð verður að óbreyttu vel á annan áratug hjá þeim sem nú hefja ferlið samkvæmt tilvísun Heilsugæslulæknis – vel á annan áratug!!

ADHD samtökin skora jafnframt á landlækni að hefja nú þegar ítarlega rannsókn á þeim órökstuddu fullyrðingum sem formaður Geðlæknafélags Íslands og fleiri hafa ítrekað sett fram um óvandaðar og tilefnislausar ADHD greiningar sálfræðinga og kollega sinna í geðlæknastétt og óhóflegar lyfjaávísanir lækna vegna ADHD. Slíkar dylgjur frá m.a. helsta talsmanni geðlækna á Íslandi, sem hingað til hefur ekki verið mótmælt opinberlega af einum einasta geðlækni, lækni eða sálfræðingi, hljóta að gefa tilefni til tafarlausra aðgerða af hálfu landlæknis, enda ber þessum starfsstéttum að vinna samkvæmt skýrum leiðbeiningum Embættis Landlæknis um greiningu og meðferð vegna ADHD og ber embættið jafnframt eftirlitsskildu með starfsemi heilbrigðisstarfsfólks.

Með þessum órökstuddu fullyrðinum hefur verið vegið mjög alvarlega að starfsheiðri þeirra sálfræðinga, geðlækna og lækna sem koma að þjónustu við fólk með ADHD á Íslandi og vandi þeirra tugþúsunda einstaklinga sem glíma við ADHD smættaður af þeim sem síst skildi. Málflutningur þessi hefur skapað mikið vantraust um verklag og vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks og á sama tíma stórskaðað málstað þeirra sem krefjast stórbættrar og sjálfsagðrar þjónustu hins opinbera fyrir fólk með ADHD. Landlæknir einn, getur og verður að bregðast við og endurvekja traust á þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu.

Samþykkt á aðalfundar ADHD samtakanna fta 16.4.2024