Höfundur er formaður ADHD samtakanna.
Ef eitthvað er að marka orð fulltrúa allra stjórnálaflokka sem mættu á opinn fund ADHD samtakanna nýverið þá er mikill samhljómur um að biðlistum eftir greiningu og meðferð vegna ADHD og annara raskana verði að útrýma. Enda finnst engum ásættanlegt að fleiri hundruð börn og fullorðnir einstaklingar bíði í mörg ár eftir lífsnauðsynlegri þjónustu. Sú er raunin í dag og hér er ljóst að þingmenn næstu ára þurfa að lyfta grettistaki.
Staðan er grafalvarleg. Samkvæmt nýlegum tölum frá Þroska- og hegðunarstöð [ÞHS] bættust 360 börn við biðlistann í ár, sem þegar taldi 304 börn frá fyrra ári. Biðtíminn nálgast því 2 ár. Hjá ADHD teymi LSH bíða um 700 fullorðið einstaklingar, biðtíminn er um 3 ár og þar sem enginn geðlæknir er lengur í teyminu tekur síðar við enn lengri bið ef íhuga á lyfjameðferð. Síðara dæmið tekur þó eingöngu til ADHD og mann óar hreinlega við að íhuga heildarfjöldan þar sem aðrar raskanir koma til.
Hvað ÞHS varðar þá er vert að hafa í huga að stöðin er hluti af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en hefur lengi verið ætlað að sjá líka um landsbyggðina. Í núverandi stöðu er því líklegt að ætla að börn utan af landi verði látin mæta afgangi. Staðan hjá öðrum stofnunum og einkaaðilum er lítið skárri, það telst eiginlega bara heppni að koma barni að innan ásættanlegs tíma.
Ef eingöngu er horft til fullorðinna með ADHD, hefur ítrekað verið nefnt að geðteymi innan heilsugæslunnar geti gripið inn í. Staðreynd málsins er þó að í núverandi mynd er þeim ekki ætlað að meðhöndla ADHD, nema þá sem hluta af stærra vandamáli einstaklings. Í ofanálag eru geðteymin í núverandi mynd ekki fullfjármögnuð. Svo er það rúsínan í pylsuendanum: Þeir tveir geðlæknar sem áður sinntu einu stöðugildi hjá ADHD teymi LSH gáfust upp vegna álags og fluttu sig yfir til fyrrnefndra geðteyma.
Vissulega gæti einkageirinn fyllt hér upp í skarðið. En þá verður fjármagn að fylgja. Það er einfaldlega ekki boðlegt að íslenskt velferðarkerfi ætlist til að foreldrar barna og fullorðnir einstaklinga með raskanir á borð við ADHD greiði þann kostnað úr eigin vasa.
Að auki má hæglega sýna fram á að skortur á þjónustu og endalausir biðlistar skapa mikinn kostnað fyrir samfélagið allt. Hagrænan og félagslegan kostnað sem hæglega má forðast með snemmtæku inngripi af ýmsum toga. Lausnir sem um leið leggja grunn að mun heilbrigðara samfélagi öllum til góðs.
Biðlistar í heilbrigðiskerfinu eru ekki náttúrulögmál heldur afleiðing af vanfjármögnun og skorti á stefnumörkun til lengri tíma. Þess vegna er gott að vita til þess að mögulegir þingmenn næstu ára séu sammála um að uppræta vandann og þurfa einungis að sammælast um bestu leiðir.
Um leið syngja í kollinum orð tveggja leikpersóna sem í lok hvers dags segja við hvorn annan „förum“ og hinn svara „já, förum.” En fara hvergi og bíða enn eftir Godot. Ég kýs þó að vera bjartsýnn um framhaldið.
Höfundur er formaður ADHD samtakanna.