Virðum mannréttindi allra barna - Áskorun til stjórnvalda

ADHD samtökin hafa ásamt fjórum öðrum samtökum sem vinna að réttindum og velferð barna, sent áskorun til stjórnvalda þar sem skorað er á þau að fara að lögum og tryggja börnum rétt sinn.


Áskorunin er svohljóðandi:

Áskorun til stjórnvalda um að fara að lögum, virða mannréttindi og tryggja vernd allra barna, ekki síst flóttabarna, langveikra og fatlaðra barna

Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var á Íslandi 2013 er kveðið á um afar mikilvæg mannréttindi sem öll börn skulu njóta sem og skyldur ríkja til að veita þeim vernd og forgangsraða í þágu barna. Samningurinn áréttar þá meginreglu sem einnig er viðurkennd í íslenskum lögum að stjórnvöld skuli í ákvörðunum sínum og aðgerðum sem varða börn ávallt hafa að leiðarljósi það sem er börnunum fyrir bestu. Samkvæmt sáttmálanum eiga börn sjálfstæð réttindi og ber yfirvöldum að virða þau.

Í 22. gr. barnasáttmálans eru sérstök ákvæði varðandi skyldur ríkja til að tryggja börnum sem leita eftir réttarstöðu sem flóttamenn, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki. Þau eiga rétt á að fá „viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.“

Í 24. gr. barnasáttmálans er kveðið á um viðurkenningu ríkja á rétti barns „til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar.“

Í 23. gr. barnasáttmálans er mælt fyrir um réttindi fatlaðra barna og skyldur ríkja til að veita þeim fullnægjandi vernd og stuðning.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið vinnur nú að fullgildingu á, eru ýmis ákvæði er varða mannréttindi fatlaðra barna og skyldur ríkja til að veita þeim margvíslega og fullnægjandi vernd og stuðning. Í 7. gr. samningsins eru sérstaklega áréttuð ýmis réttindi fatlaðra barna og skyldur ríkja til að tryggja að þau fái notið þeirra.

Við undirrituð skorum á hlutaðeigandi stjórnvöld að fara að lögum, virða ofangreind ákvæði og gæta sérstaklega að þeim skyldum sem af þeim leiða í allri meðferð mála og ákvarðanatöku er varðar börn. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur lögfest, skal ávallt hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi, þegar ákvarðanir eru teknar í málefnum þess. Öll börn, flóttabörn jafnt sem önnur börn, eiga ávallt að njóta þessara réttinda og verndar.

Reykjavík 11. desember 2015.

Bryndís Snæbjörndóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar
Elín H. Hinriksdóttir, formaður ADHD samtakanna
Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna
María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls ráðgjafamiðstöðvar
Guðmundur Björgvin Gylfason, formaður Umhyggju
Ragna Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju
Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi
Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

Áskorunin á PDF-formi