Vel lukkað málþing.

Það var gleði og gaman í bland við alvöru á málþingi ADHD samtakanna föstudaginn 11. október síðastliðinn. Um hundrað mættu til að hlýða á erindin. Dísa leikkona og Reykjavíkurdóttir stýrði málþinginu með glæsibrag. Dóra Björt flutti erindi og setti tóninn fyrir daginn með því að deila sinni reynslu og sjá mátti í salnum að fjölmargar sáu sjálfa sig í þeirri reynslu. Arndís Vilhjálmsdóttir geðhjúkrunarfræðingur fræddi okkur um konur og refsivist. Fangaverk voru með sínar vörur til sölu og var þeim vel tekið enda bæði fallegar vörur og gott málefni. Unnur Jakobsdóttir Smári fór yfir sláandi niðurstöður um tengsl ADHD, líkamlegra áhættuþátta og sjúkdóma. Eftir hádegishlé fór Kristín Þórsdóttir yfir hvernig ADHD getur haft áhrif á kynlífsreynslu kvenna og henti í létta fræðslu um snípinn ásamt fjölmörgum leiðum til að efla jákvæða upplifun í kynlífi. Ragga Nagli setti svo punktinn yfir i-ið með því að leiða okkur í sannleikan um hvernig ADHD hefur áhrif á matarvenjur, kom með margar leiðir til að bæta samskipti við mat og draga úr skúffuóeirð og skápaskrölti. ADHD samtökin þakka öllum þeim sem tóku til máls og þeim sem hlustuðu fyrir ánægjulega samveru.