Vegið að atvinnuréttindum fólks með ADHD innan lögreglunnar

Vegið að atvinnuréttindum fólks með ADHD
Vegið að atvinnuréttindum fólks með ADHD

Vegið að atvinnuréttindum fólks með ADHD innan lögreglunnar

ADHD samtökin mótmæla harðlega breyttum inntökuskilyrðum sem Mennta- og starfþróunarsetur lögreglurnar hefur nýverið upplýst um. Þar er í fyrsta sinn hérlendis þrengt verulega að atvinnu- og menntamöguleikum fólks með ADHD.

Að mati ADHD samtakanna byggja þessar breyttu reglur Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar á vanþekkingu, úreltum hugmyndum og stangast beinlínis á við lög og vísindalega þekkingu um ADHD og virkni ADHD lyfja. Svo getur virst sem þekkingu höfundar reglnanna, á málaflokknum, sé alvarlega ábótavant sem má meðal annars sjá af orðalagi þess hluta leiðbeininganna sem fjallar um læknisvottorð.

ADHD samtökin benda jafnframt á að nýverið afnámu yfirvöld hermála í Noregi sambærilegar takmarkanir á inntöku einstaklinga með ADHD í norska herinn enda talið fráleitt að setja svo alvarlegar og almennar skorður við atvinnufrelsi fólks með ADHD, líkt og nýjar reglur Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar gera ráð fyrir.

ADHD samtökin skora á Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, ríkislögreglustjóra og ráðherra málaflokksins, að afturkalla nýju inntökureglurnar nú þegar, þar sem markmið þeirra virðist það eitt að útiloka fólk með ADHD frá störfum innan lögreglunnar. Einnig má færa rök fyrir því að reglurnar gætu orðið til þess að þeir lögreglumenn sem eru nú þegar starfandi og eru með greint eða ógreint ADHD veigri sér við að leita sér aðstoðar, sem svo aftur getur haft neikvæð áhrif á starfsgetu þeirra innan lögreglunnar.

ADHD samtökin munu aldrei sætta sig við hinar nýju reglur og heita því að berjast gegn slíkri mismunun, hérlendis og annarsstaðar þar sem slíkar reglur eru enn í gildi. Um það hefur þegar tekist samstarf við systursamtök ADHD samtakanna á Norðurlöndunum.

Samþykkt af stjórn ADHD samtakanna 19.8.2019

Nánari upplýsingar veitir varaformaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson í síma 8936395