Uppeldisnámskeið hjá Þroska-og hegðunarstöð

Námskeið fyrir foreldra um uppeldi barna með ADHD

Markhópur

Foreldrar barna sem greind hafa verið með ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) og barna þar sem skimun eða fullnaðargreining hefur sýnt hamlandi ADHD einkenni. Efnið hentar helst vegna barna á fimmta til tólfta aldursári, sem ekki hafa alvarlegar eða fjölbreyttar fylgiraskanir. 

Markmið

Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá við að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með þessa og tengdar raskanir. Foreldrar eru studdir til að skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma.

Fyrirkomulag

Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist í 6 skipti, 2 tíma í senn. Fyrstu 5 skiptin eru vikulega, en síðasti tíminn er tveimur vikum á eftir þeim 5. Í hverjum tíma veita leiðbeinendur fræðslu um ákveðin grundvallaratriði, studd af námskeiðsgögnum. Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Milli tíma vinna foreldrar heimaverkefni sem rædd eru í næsta skipti og ráðgjöf er gefin um framhaldið. Að auki býðst einstaklingsráðgjöf milli tíma ef þörf krefur. Hver áfangi námskeiðsins byggir á því sem á undan er gengið og því mikilvægt að gera ráðstafanir til að geta sótt alla tímana. Mælt er með því að báðir foreldrar sæki námskeiðið.

Tími og skráning

Á vorönn 2012 verða haldin tvö námskeið. Það fyrra hefst þriðjudaginn 7. febrúar og stendur til 20. mars. Síðara námskeiðið hefst fimmtudaginn 1. mars og stendur til 12. apríl. 

Opnað verður fyrir skráningu á bæði námskeiðin í byrjun janúar 2012 og verður það auglýst hér á síðunni.  

Námskeiðin fara  fram í húsnæði ÞHS að kvöldlagi kl. 19:30 - 21:30. Þátttökugjald er kr. 9.500 fyrir einstaklinga og kr. 12.700 fyrir pör.

Fyrirspurnir má senda í tölvupósti eða leita upplýsinga í síma 585-1350

 

Sjá nánar hér:

http://heilsugaeslan.is/pages/2136