Við vorum að taka á móti tveimur nýjum bókum í bókaflóruna hjá okkur. Bækurnar Súper Viðstödd og Súper Vitrænn eru eftir barnasálfræðingana Soffíu Elínu Sigurðardóttur og Paolu Cardenas en þær eru fyrstu barnabækurnar í seríunni um Súperstyrkina sem eru sex talsins. Hver Súperstyrkur hjálpar börnum að öðlast ákveðna færni sem styrkja sjálfsmynd þeirra. Súper bækurnar miðla sálfræðiþekkingu til barna og uppalendur á skemmtilegan hátt þar sem leitast er við að efla sjálfsþekkingu þeirra, bjargráð og að virkja innri styrk. Byggjast bækurnar á gagnreyndum sálfræðiaðferðum og eru stílaðar inn á 4 til 10 ára gömul börn. Eldri börn geta notið góðs af lestrinum og eru enn færari að tileinka sér æfingarnar sem teknar eru fyrir í bókunum. Í bókunum er einnig fræðsla ætluð foreldrum og fagaðilum um viðfangsefnin sem tekin eru fyrir í bókunum.
Súper Viðstödd
Klara er fjörug og uppátækjasöm stúlka. Hún á stundum erfitt með að einbeita sér og truflast auðveldlega. Með aðstoð frá Súper Viðstaddri og afa sínum lærir Klara að nota núvitundaræfingar og jóga til að róa hugann og fær um leið útrás fyrir hreyfiþörfina og leiðir til þess að takast á við krefjandi aðstæður. Bókina er hægt að finna hér í vefverslun samtakanna.
Súper Vitrænn
Tristan er tilfinningaríkur drengur sem fær stundum óþægilegar hugsanir og verður þá dapur. Súper Vitrænn kennir Tristani aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar til þess að taka betur eftir hugsunum sínum og tilfinningum sem hafa áhrif á hegðun. Með tímanum lærir Tristan að velja hugsanir sem hjálpa honum að líða vel. Bókina er hægt að finna hér í vefverslun samtakanna.