Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna yngri en 18
ára tók gildi þann 15. maí sl.
Markmið samningsins er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu,
óháð efnahag foreldra.
Kerfið verður innleitt í nokkrum þrepum.
Í upphafi tekur samningurinn til 15, 16 og 17 ára barna og þann 1. september nk. munu 3ja, 12, 13 og 14 ára börn
bætast við. Í áföngum munu öll börn falla undir samninginn.
Þau börn sem samningurinn tekur ekki strax til eiga áfram rétt á
greiðsluþátttöku vegna tannlæknakostnaðar í samræmi við endurgreiðslugjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Rafræn
reikningsskil tannlækna munu leiða til þess að þeir sem njóta þjónustunnar þurfa þá hvorki að leggja út fyrir hlutdeild
sjúkratrygginganna né að standa sjálfir í því að fá hana endurgreidda.
Nauðsynlegt að skrá heimilistannlækni
Samkvæmt samningnum eru tannlækningar barna greiddar að fullu af SÍ, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald.
Frá 1. júní nk. verður, samkvæmt samningnum, forsenda fyrir greiðsluþátttöku SÍ að barn sé skráð hjá
heimilistannlækni. Skráningin er einföld í framkvæmd og geta foreldrar/forráðamenn skráð börn sín í Réttindagátt
á vef SÍ [mínar síður á www.sjukra.is] og valið tannlækni af lista yfir þá sem eru aðilar að samningnum. Aðgangur að Réttindagáttinni er
tryggður með rafrænum skilríkjum eða veflykli skattyfirvalda.
Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins en eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann
sér jafnframt um forvarnir og nauðsynlegar tannlækningar þeirra. Markmiðið er að að öll börn fái nauðsynlega
tannlæknaþjónustu og að tannheilsa barna verði eins og best gerist á Norðurlöndunum.
Mikilvægt að panta tíma fyrir 18 ára afmælisdag
Athygli er vakin á því að réttur til þjónustu samkvæmt samningnum fellur niður við 18 ára aldur (afmælisdag einstaklingsins).
Því er mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem hafa hug á að nýta sér þjónustuna og verða 18 ára á fyrstu vikum
eftir gildistöku samningsins að bóka tíma sem fyrst hjá tannlækni.
Reglugerð um tannlækningar barna
Nánari umfjöllun á vef SÍ