Sölufólk á vegum ADHD samtakanna stóð vaktina um helgina, bæði í Smáralind og Kringlunni og seldi endurskinsmerki samtakanna 2016. Viðtökurnar voru eins við áttum von á, frábærar. Samtökin eru afar þakklát öllum sem lögðu málefninu lið og keyptu af okkur merki með enn einni magnaðri mynd Hugleiks Dagssonar.
ADHD samtökin kynntu í byrjun mánaðar nýtt endurskinsmerki en sala endurskinsmerkja er mikilvægur liður í vitundarmánuði ár hvert. Þar er bæði um að ræða mikilvæga fjáröflun fyrir starfsemi ADHD samtakanna og ekki síður er merkjasölunni ætlað að vekja athygli á málefnum einstaklinga með ADHD.
Þetta er áttunda árið í röð sem ADHD samtökin selja endurskinsmerki í þágu starfseminnar. Sem fyrr leggur Hugleikur Dagsson til teikningu á merkið en það hefur hann gert allt frá því ADHD samtökin hófu endurskinsmerkjasöluna. Líkt og í fyrra var merkið formlega kynnt og fyrstu eintökin afhent á afmælisdegi listamannsins, 5.október.
Fyrstu merkin voru afhent forstjóra Fangelsismálastofnuna rog starfsfólki stofnunarinnar í nýju fangelsi að Hólmsheiði.
Endurskinsmerkin eru áfram til sölu á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vefnum www.adhd.is.
Um komandi helgi, dagana 22. og 23. október, verður svo sölufólk á vegum ADHD á Glerártorgi á Akureyri.
Endurskinsmerki samtakanna