Spurt um ADHD-teymið á Alþingi

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylikingarinnar lagði síðdegis fram fyrirspurn á Alþingi um ADHD teymi Landspítala. Sigríður vill fá svör frá  Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra um hvort hann hyggist tryggja áframhaldandi fjárveitingu til teymisins. Þá spyr hún hvort ráðuneytið hafi metið árangur teymisins, hvaða meðferðarúrræði muni koma í stað þeirrar þjónustu sem teymið hefur veitt ef hætta verður starfsemi þess og loks hvort fyrir liggi mat á kostnaðarauka vegna aukinnar lyfjanotkunar sem ætla megi að verði, ef starfsemi ADHD teymisins verður hætt.

ADHD teymi Landspítalans var komið á fót í mars í fyrra í tíð Guðbjartar Hannessonar, þáverandi heilbrigðisráðherra. Því er ætlað að stuðla að markvissari greiningum og meðferð fullorðinna með ADHD á Íslandi og að vera opinberum stofnunum til ráðgjafar varðandi þennan málaflokk. Í nýlegri skýrslu á úttekt verkefnis segir að ríkuleg þörf sé á starfseminni. Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er engu að síður ekki gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingu teymisins.

Um sex hundruð manns eru á biðlista eftir því að fá greiningu. María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala sagði í fréttum í gær að um 55 prósent þeirra sem teymið hefur tekið til skoðunar greinist með ADHD. Auðvelt sé að meðhöndla röskunina og ávinningurinn sé mikill, bæði fyrir einstaklinginn sem og þjóðfélagið.

ADHD samtökin á Íslandi eru uggandi vegna þessara tíðinda og hvetja félagsmenn til að láta sig málið varða, m.a. með því að setja sig í samband við þingmenn en þeir hafa úrslitavaldið þegar kemur að samþykkt fjárveitinga til einstakra verkefna. ADHD samtökin telja grafalvarlegt ef teymið leggst af og hvetja til samstöðu gegn slíkum ákvörðunum.

Í leiðbeiningum um vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrest með ofvirkni sem voru fyrst gefnar út á vef Embættis landlæknis í desember 2007 og endurskoðuð útgáfa birt í mars 2012, s.k. Klínískum leiðbeiningum, segir skýrt m.a. í kaflanum um verklag við greiningu fullorðinna; "Mælt er með því að greiningarvinna sé unnin í þverfaglegu teymi starfsfólks sem sérhæft er í greiningu á ADHD."

Fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur

Frétt 08. október 2014 - Lifir ADHD teymið?