Skóli án aðgreiningar - Hvað ætlar þú að gera?

"Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að tryggja að hér á landi sé menntastefnunni um skóla án aðgreiningar raunverulega framfylgt?" Þannig hljóðar ein þeirra sex spurninga sem send var til fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis. ADHD samtökin eru í hópi 14 hagsmunasamtaka sem standa að sendingu spurningalistans. Tilgangurinn er að koma málinu betur á dagskrá en verið hefur og knýja á um bætta þjónustu við börn með geðrænan vanda, fötlun eða aðra sérstöðu.

SAMFOK sendu í dag f.h. þrýstihóps um bætta þjónustu við börn með geðrænan vanda, fötlun eða aðra sérstöðu, spurningalista til allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis í kosningum þann 29. október næstkomandi.

Að spurningalistanum standa 14 hagsmunasamtök;

  • SAMFOK
  • Barnaheill
  • ADHD samtökin
  • Einhverfusamtökin
  • Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð
  • Olnbogabörn
  • Umboðsmaður barna
  • Heimili og skóli
  • Þroskahjálp
  • Umhyggja
  • UNICEF á Íslandi
  • Foreldraráð Hafnarfjarðar
  • Málefli
  • Tourette-samtökin

Spurningarnar eru eftirfarandi:

  1. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að tryggja að hér á landi sé menntastefnunni um skóla án aðgreiningar raunverulega framfylgt
  2. Það er á ábyrgð ríkis að verkefnum sem falin eru sveitarfélögum fylgi fjármagn. Hvernig ætlar þinn flokkur að tryggja að það fjármagn sem þarf til að reka skóla án aðgreiningar verði veitt frá ríki til sveitarfélaga?
  3. Í ljósi þess að öll þjónusta á að vera til staðar í skóla án aðgreiningar, er mikilvægt að þar sé nóg af vel menntuðu starfsfólki til að mæta margbreytilegum þörfum allra nemenda (t.d. grunnskólakennarar, sérkennarar, talmeinafræðingar, náms- og starfsráðgjafar, þroska-þjálfar). Hvaða leiðir sér þinn flokkur í að fjölga fagmenntuðum innan hvers skóla?
  4. Að mati hópsins þarf verulega að bæta aðbúnað og aðstöðu í skólum til þess að framfylgja stefnu um skóla án aðgreiningar, sbr. það sem fjallað er um í spurningu 3. Má til að mynda nefna húsrúm fyrir sérúrræði innan skólanna. Hvernig sér þinn flokkur fyrir sér að hægt sé að bæta þá þætti innan skóla án aðgreiningar?
  5. Hver er stefna flokksins í geðheilbrigðismálum og þá sérstaklega þegar horft er til geð-heilbrigðismála barna og ungmenna?
  6. Hver er stefna flokksins í málefnum stofnana sem koma að málum barna með sérþarfir svo sem Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, BUGL og Þroska- og hegðunarstöð. Hvernig hyggst þinn flokkur hafa áhrif á að biðlistum verði útrýmt?

Að mati hópsins skortir verulega á að þjónusta við ofangreindan hóp barna uppfylli mannréttindaákvæði og lagaskyldu. Því vill hópurinn vekja athygli stjórnmálaflokkanna á ábyrgð þeirra á málefninu og mikilvægi þess að verulega verði bætt úr á næsta kjörtímabili.

Hópurinn óskar svara við spurningunum fyrir þann 20. október og verða svörin birt á vefsíðum þeirra sem að listanum standa.

BRÉF SAMTAKANNA Í HEILD


Senda póst til ADHD samtakanna