Ellen Calmon og Ingibjörg Broddadóttir
Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu og Ellen Calmon,
framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, undirrituðu í morgun samning um starfsemi samtakanna.
Meginmarkmið samningsins er að styrkja ADHD samtökin til að vinna að því markmiði sínu að börn og fullorðnir með athyglisbrest,
ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun
þeirra, möguleika í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum.
Samningurinn er gerður til eins árs og felur í sér fjárframlag frá ríkinu sem skiptir sköpum fyrir grunnrekstur ADHD samtakanna.
„Með þessum samningi er styrkari fjárhagslegum stoðum skotið undir grunnstarfsemi ADHD samtakanna. Fyrir það erum við afar þakklát og ekki
síður þá viðurkenningu og þann skilning á starfi okkar, sem í undirritun samningsins felst. Það fer vel á því á 25
ára afmæli ADHD samtakanna. Umfang starfseminnar vex stöðugt, fjölmörg verkefni bíða úrlausna og samningurinn við
velferðarráðuneytið gerir okkur án efa kleift að sinna einhverjum þeirra,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna.