Frá afhendingu verðlaunanna MYND/Valgarður Gíslas.
Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru afhent við hátíðlega athöfn á dögunum en ADHD samtökin fengu í ár tilnefningu
í flokknum "Til atlögu gegn fordómum". Það er mikill heiður að fá tilnefningu og í henni felst viðurkenning á starfi ADHD samtakanna.
Björk Þórarinsdóttir formaður stjórnar ADHD og Ellen Calmon, framkvæmdastjóri, veittu viðtöku handunnum grip sem allir tilnefndir fengu
frá Fréttablaðinu. Gripurinn er unnin af starfsfólki Ásgarðs handverkstæðis, sem fékk samfélagsverðlaun Fréttablaðsins
árið 2009.
Í umsögn dómnefndar um ADHD samtökin segir m.a.; "ADHD-samtökin fagna aldarfjórðungsafmæli á árinu. Markmið samtakanna er að börn og fullorðnir með
athyglisbrest og skyldar raskanir njóti sannmælis í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að bættum lífsgæðum.
Samtökin vinna mikilvægt starf þegar kemur að börnum og unglingum með ofvirkni og athyglisbrest. Fræðslufundir samtakanna eru jafnan mjög vel
sóttir en auk þess standa samtökin fyrir námskeiðshaldi af ýmsu tagi og útgáfu fræðsluefnis."
Þetta er í áttunda sinn sem Fréttablaðið veitir Samfélagsverðlaunin en þau eru veitt í fjórum flokkum auk heiðursverðlauna.
Kaffistofa Samhjálpar hlaut í ár Samfélagsverðlaunin en aðrir sem tilnefndir voru Samfélagsverðlaunanna voru Kattholt og Alzeimer-kaffi.
Í flokknum Til atlögu gegn fordómum hlaut Projekt
Polska verðlaun en aðrir tilnefndir í þessum flokki voru ADHD-samtökin og Sendiherrar Sameinuðu þjóðanna um réttindi
fatlaðra.
Hvunndagshetja ársins er Sigurlaug Hermannsdóttir en aðrir sem voru tilnefndir í þessum flokki voru Guðmundur Stefán Gunnarsson og Halldór Gunnar Pálsson.
Í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar hlaut Margrét Pálmadóttir kórstjóri verðlaun en aðrir
tilnefndir voru Félag eldri borgara á Suðurnesjum og grunnskólar í
Reykjanesbæ og Steindór
Andersen.
Sérstök heiðursverðlaun hlaut Óli H. Þórðarson fyrir áratugaframlag til umferðaröryggismála.
Um verðlaunin
Á fjórða hundrað tilnefningar bárust frá lesendum Fréttablaðsins að þessu sinni. Markmið með Samfélagsverðlaununum er
að beina sjónum að þeim góðu verkum sem unnin eru í samfélaginu. Þetta er í áttunda sinn sem Fréttablaðið veitir
Samfélagsverðlaunin.
Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins eru sem fyrr segir tólf hundruð þúsund krónur, aðrir verðlaunahafar fengu tíu tommu United
spjaldtölvu frá Tölvulistanum auk verðlaunagripa sem eru hannaðir og smíðaðir af Ásgarði, Mosfellsbæ.
Dómnefnd var þannig skipuð: Arndís Þorgeirsdóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, var formaður nefndarinnar.
Aðrir: Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar og Þorsteinn J. Vilhjálmsson
dagskrárgerðarmaður.