Lifir ADHD teymi Landspítalans?

Meðferð við ADHD er afar góð fjárfesting, segir Dr. Ari Tuckman sálfræðingur en hann hefur sérhæft sig í ADHD. Fréttir bárust í gær þess efnis að leggja þyrfti ADHD teymi Landspítalans niður að óbreyttu og fréttastofa Stöðvar 2 gerði málinu góð skil. Ekki virðist fjárveiting fyrir teymið í nýju fjárlagafrumvarpi sem þýðir að leggja verður það niður. Árlegur kostnaður teymisins er fjörutíu milljónir króna. Ari Tuckman segir það komi til með að reynast samfélaginu mun dýrara að hjálpa ekki þeim sem glíma af ADHD.

ADHD teymi Landspítalans var komið á fót í mars í fyrra í tíð Guðbjartar Hannessonar, þáverandi heilbrigðisráðherra. Því er ætlað að stuðla að markvissari greiningum og meðferð fullorðinna með ADHD á Íslandi og að vera opinberum stofnunum til ráðgjafar varðandi þennan málaflokk. Í nýlegri skýrslu á úttekt verkefnis segir að ríkuleg þörf sé á starfseminni. Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er engu að síður ekki gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingu teymisins.

„Þetta er mjög vönduð og fagleg vinna,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala Íslands. „Það er búið að leggja mikla vinnu í að mennta og þjálfa starfsmenn teymisins. Þannig að við erum mjög stolt af þessari vinnu.“

Góð fjárfesting

Um sex hundruð manns eru á biðlista eftir því að fá greiningu. María segir að um 55 prósent þeirra sem teymið hefur tekið til skoðunar greinist með ADHD. Auðvelt er að meðhöndla röskunina en ávinningurinn er hinsvegar mikill, bæði fyrir einstaklinginn sem og þjóðfélagið.

„Meðferð við ADHD er afar góð fjárfesting,“ segir Ari Tuckman sálfræðingur, en hann hefur sérhæft sig í ADHD. Hann hefur skrifað þrjár bækur um sjúkdóminn og hefur ein þeirra verið þýdd á íslensku, "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala."

Ari Tuckman segir það mun kostnaðarsamara fyrir heilbrigðiskerfið að meðhöndla ekki einstaklinga með ADHD heldur en þær fjörutíu milljónir sem Landspítalateymið kostar á ári.

„Fullorðið fólk með ADHD glímir gjarnan við yfirþyngd eða jafnvel offitu, það hefur of háa blóðfitu, mataræði þess er slæmt og það stundar litla líkamsrækt. Þetta hefur áhrif á kostnað við sykursýkismeðferð og meðferð við hjartasjúkdómum,“ segir Tuckman.

Klínískar leiðbeiningar landlæknis mæla með greiningu hjá þverfaglegu teymi

ADHD samtökin á Íslandi eru uggandi vegna þessara tíðinda og hvetja félagsmenn til að láta sig málið varða. Það er m.a. hægt með því að setja sig í samband við þingmenn en þeir hafa úrslitavaldið þegar kemur að samþykkt fjárveitinga til einstakra verkefna. ADHD samtökin telja grafalvarlegt ef teymið leggst af og hvetja til samstöðu gegn slíkum ákvörðunum.

Í leiðbeiningum um vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrest með ofvirkni sem voru fyrst gefnar út á vef Embættis landlæknis í desember 2007 og endurskoðuð útgáfa birt í mars 2012, s.k. Klínískum leiðbeiningum, segir skýrt m.a. í kaflanum um verklag við greiningu fullorðinna; "Mælt er með því að greiningarvinna sé unnin í þverfaglegu teymi starfsfólks sem sérhæft er í greiningu á ADHD."

„Við neitum að trúa því að þetta verði niðurstaðan. Ég vil trúa því statt og stöðugt, miðað við reynsluna af teyminu að heilbrigðisráðherra eigi bara eftir að ganga í málið og klára það. Það er ekki kostur í okkar huga að teymið verði lagt niður. Úrræðin fyrir fullorðna eru þegar of fá og hvað á að koma í staðinn?“ segir Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna.

 

Frétt á visir.is