Leikskólar og ADHD - 25 ráð og verkfæri

Halli Pollapönkari fékk fyrsta eintakið   MYND:VKJ
Halli Pollapönkari fékk fyrsta eintakið MYND:VKJ

ADHD samtökin hafa ráðist í útgáfu bókarinnar „Leikskólar og ADHD, 25 ráð og verkfæri“.

Lengi hefur verið spurn eftir efni um börn með ADHD og leikskólann, sem hægt er að styðjast við í vinnu með börnum með ADHD.

Í þeim tilgangi að mæta þörfinni var ráðist í gerð bókarinnar.

"Halli Pollapönkari" Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, tók við fyrsta eintaki bókarinnar í morgun.

 

Dönsku ADHD samtökin gáfu bókina út í fyrra en hún er hluti af KIK-verkefninu (Kærlighed I Kaos) foreldrafærninámskeiði dönsku ADHD samtakanna.

Bókin hefur nú verið þýdd á íslensku og staðfærð. Þýðingu önnuðust Elín H. Hinriksdóttir og Drífa B. Guðmundsdóttir.

Sorpa og Öryrkjabandalag Íslands styrktu útgáfu bókarinnar.

Í bókinni er að finna 25 ráð og verkfæri sem geta hjálpað starfsfólki leikskóla í daglegu starfi og vonandi orðið því innblástur, ásamt því að veita nýjar hugmyndir. Aðferðirnar sem lýst er, henta ekki eingöngu börnum með ADHD heldur geta þær gagnast öllum börnum.

 

 

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara tók við fyrsta eintaki íslensku þýðingarinnar við athöfn á leikskólanum Múlaborg í dag.

Bókin verður gefin öllum leikskólum landsins. Þá verður bókin fáanleg á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vef samtakanna, www.adhd.is



NÝTT ENDURSKINSMERKI

Við athöfnina í morgun var einnig kynnt nýtt endurskinsmerki ADHD samtakanna. Þetta er sjöunda árið sem ADHD samtökin selja endurskinsmerki í þágu starfseminnar. Sem fyrr á Hugleikur Dagssson teikninguna á merkinu.

Fyrstu merkin voru afhent nemendum og starfsfólki á leikskólanum Múlaborg í morgun.

Endurskinsmerkin verða svo seld á afgreiðslustöðum N1, á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vefnum www.adhd.is
Allur söluágóði rennur til ADHD samtakanna.

Bókaútgáfan og sala endurskinsmerkjanna eru þættir í myndarlegri dagskrá ADHD samtakanna í alþjóðlegum vitundarmánuði nú í október.

 

Myndir frá afhendingu bókarinnar


Umfjöllun RÚV um málið