Í þættinum Fólk með Sirrý á Hringbraut síðastliðið miðvikudagskvöld var rætt við fólk á fullorðinsárum sem hefur lifað með athyglisbresti sínum frá því það man eftir sér, en opinber umræða um hegðunaráráttu af þessu tagi var varla til í þeirra ungdæmi.
Í þáttinn til Sirrýjar mættu leikarinn Stefán Karl Stefánsson sem lýsti því með tilþrifum hvernig er að glíma við athyglisbrestinn sem hann segir að geti oft og tíðum verið einmanalegt, en hann eigi það til að loka sig af inni á heimilinu með konu og börnum og þrá það eitt að enginn trufli hann í örygginu innan dyra, en hans ADHD fylgi oft þunglyndi, félagsleg einangrun og þá er ónefnt skilningsleysi samfélagsins.
Stefán Karl talaði um líka kostina eins og t.d. að geta brugðið sér í átta hlutverk í einni leiksýningu á Hróa hetti, líða vel undir álagi þegar skipulag riðlast og sjá það sprenghlægilega við einkenni ADHD.
Birtingarmyndir athyglisbrests eru annars margar eins og aðrir gestir þáttarins komu inn á, en þeir voru Freyja Gylfadóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson sem bæði lýstu sinni glímu af hispursleysi, en birtingarmynd hennar er oft og tíðum sérkennileg þráhyggja.
Freyja og Vilhjálmur töluðu líka um hvílíkur léttir það hafi verið að fá greininguna og vita hvers vegna þeim leið svona. Freyja talaði um að hafa áttað sig á því að hún var ekki ,,lacy, stupid, crazy" heldur með ADHD með öllum þeim kostum og göllum sem fylgja.
Fólk með Sirrý verður framvegis á miðvikudagskvöldum í vetur, en hægt er að nálgast þáttinn á hringbraut.is í heild sinni eða að hluta.
Vefsíða Hringbrautar