Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi, Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðukona Hljóðbókasafnsins og Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.
Hljóðbókasafn íslands hlaut hvatningarverðlaun ADHD samtakanna í ár fyrir ómetanlega þjónustu til handa börnum og fullorðnum með ADHD sem erfitt eiga með að nýta sér prentað mál. Verðlaunin voru afhent á málþinginu Konur - vitund og valdefling sem haldið var í Jötunheimum, sal Skátafélagsins Vífils í Garðabæ.
Borgarfulltrúinn, Dóra Björt Guðjónsdóttir og formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson afhentu Marínu Guðrúnu Hrafnsdóttur forstöðukonu Hljóðbókasafnsins - viðurkenningarskjal og glæsilegt málverk eftir Aron Leví Beck (Albeck).
Í ávarpi sínu við verðlaunaafhendinguna fór Vilhjálmur yfir rökstuðning stjórnar fyrir valinu og sagði m.a. eftirfarandi:
„Þetta árið beinum við sjónum að rétt rúmlega fertugum öldungi, hvers forsaga nær reyndar mun lengra aftur. Handhafi hvatningarverðlaun ADHD samtakanna 2024 er Hljóðbókasafn Íslands fyrir ómetanlega þjónustu til handa börnum og fullorðnum með ADHD sem erfitt eiga með að nýta sér prentað mál.
Forsögu safnist má rekja til segulbandstækni sjötta áratugarins þegar Blindravinafélag Íslands og Blindrafélagið hófu innlestur bóka. Síðar meir gengu Helga Ólafsdóttir og Gísli Helgason á fund menntamálaráðherra sem aftur leiddi til lagasetningar og 1983 tók Blindrabókasafn Íslands formlega til starfa.
Í upphafi var safnið eingöngu hugsað fyrir blinda og sjónskerta. Upp úr 1990 var starfsemin útvíkkuð og m.a. tekið við vottorðum frá fólki sem glímir við lesblindu
Á árunum 2008-2009 má segja að orðið hafi bylting í miðlun hljóðbóka og allri starfsemi safnsins þegar eldri hljóðrit voru yfirfærð á stafrænt form og í framhaldinu innleiddar tækninýjungar í útlánaleiðum.
Með nýjum bókasafnalögum og reglugerð frá 2013 var nafni safnsins breytt og til varð Hljóðbókasafn Íslands. Í reglugerð segir: „Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni. Hér getur m.a. verið um að ræða blinda, sjónskerta, lesblinda o.fl. Sérstök áhersla skal lögð á námsþjónustu.“ En um leið afmarkast þjónusta safnsins að mestu við höfundarréttarsamninga og fjármagni ríkisins í samræmi við þá.
Nú er það svo að ADHD greining ein og sér réttlætir ekki aðgengi að Hljóðbókasafni Íslands, enda um stóran hóp að ræða og langt í frá að öll okkar eigi í vandræðum með að nýta sér „venjulegt prentað letur.“ Vissulega finnst mörgum gott að hlusta á hljóðbækur, þar sinna vel almenn bókasöfn og streymisveitur þörfum fjöldans. En fyrir þau í okkar hópi sem þurfa, hefur þjónusta Hljóðbókasafns Íslands skipt sköpum, svo vægt sé til orða tekið.
Í aðdraganda fyrrnefndrar lagabreytingar reyndist lykilatriði framsýni þáverandi forstöðukonu og starfsmanna safnsins sem tryggði að ný lög og reglugerð yrðu ekki um of íþyngjandi. Fyrir utan hið augljósa, að safnið þjónusti blinda og sjónskerta, er einungis gerð krafa um að umsókn fylgi staðfesting frá fagaðila – þess vegna kennara eða námsráðgjafa – þar sem vottað er að einstaklingur hafi tiltekna greiningu og eigi jafnframt erfitt með að lesa sér til gagns.
Það er ekki síst fyrir þennan þátt sem Hljóðbókasafn Íslands er handhafi hvatningarverðlauna ADHD samtakanna 2024.
Megi starfsmenn og stjórnendur HBS, nú sem fyrr, hafa kæra þökk fyrir – út í hið óendanlega.
Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðukona Hljóðbókasafns Íslands, ásamt öllum starfsmönnum nú sem fyrr: Hjartanlega til hamingju“.
Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna eru viðurkenning sem stjórn ADHD samtakanna úthlutar einu sinni á ári, fyrst árið 2021. Verðlaunin má veita hverjum þeim sem með mikilsverðum hætti hefur lagt sitt af mörkum til bæta lífsgæði fólks með ADHD á Íslandi. Einstaklingar, félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki eða hverskyns lögaðilar geta fengið Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna. Áður hafa Dr. Urður Njarðvík (2021), KFUM og KFUK (2022) og Sjónarhóll - ráðgjafamiðstöð ses (2023) fengið viðurkenninguna.